Erlent

Mun skaða Bandaríkin meira

Það mun skaða Bandaríkjamenn mun meira en Íran, ráðist þeir á landið. Þetta segir varnarmálaráðherra Írans og lofar auknu hatri í garð Bandaríkjamanna og bandamanna þeirra láti þeir verða af árásum.

 

Varnarmálaráðherra Írans sagði Bandaríkjamenn aðeins vera að reyna að hræða íranskan almenning með yfirlýsingum sínum um árásir á landið. Hann ítrekaði þó að Íranar vildu ekki eignast kjarnavopn, eini tilgangurinn með kjarnorkuframleiðslu væri að framleiða rafmagn, það væri þeirra réttur og vilji. Því eiga leiðtogar vesturlanda þó erfitt með að trúa. Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði í gær að Íranar hefðu farið yfir strikið þegar þeir tilkynntu að auðgun úrans væri hafin í landinu og væru nú í beinni andstöðu við alþjóðasamfélagið. Þá sagði utanríkisráðherra Frakklands í morgun að kjarnorkuáætlun Írana væri yfirskyn yfir leynilega hernaðarstarfsemi. Bandaríkjastjórn útilokar ekki árásir á landið en hyggst á sama tíma ætla að verja um fimm milljörðum íslenskra króna til þess að ýta undir lýðræðisþróun í Íran. Rice segir að fénu verði varið til að vinna gegn árásargjarnri stefnu ríkisstjórnar landsins. Peningarnir verði notaðir til að kosta sendingar bandarískra útvarps og sjónvarpsstöðva sem beint verði að almenningi í Írak. Þá sé ætlunin að kosta Írana til náms í Bandaríkjunum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×