Erlent

Leitað eftir aðstoð vegna þurrka í Kenía

Maður úr Maasai-þjóðflokknum rekur hjörð sína út á sléttu í útjaðri Naíróbí-þjóðgarðsins.
Maður úr Maasai-þjóðflokknum rekur hjörð sína út á sléttu í útjaðri Naíróbí-þjóðgarðsins. MYND/AP

Stjórnvöld í Kenía hafa farið fram á 245 milljónir dollara, jafnvirði tæplega fimmtán milljarða króna, í neyðaraðstoð vegna þurrka í landinu fimmta árið í röð.

Féð hyggjast stjórnvöld nota til þess að kaupa mat, vatn og aðrar birgðir fyrir um þrjár komma fimm milljónir manna sem eiga um sárt að binda vegna þurrkanna. Talið er að þörf sé á 400 þúsund tonnum af mat fyrir hina þurfandi en þurrkarnir eru mestir í norður, norðaustur og austurhluta Kenía. Þeir hafa leitt til þess að ræktarland er skrælnað auk þess sem skepnur hafa hríðfallið vegna fæðuskorts.

Fulltrúi Matvælahjálpar Sameinuðu þjóðanna segir mikilvægt að bregðast strax við til þess að koma í veg fyrir hungursneyð í landinu, en talið er að þær birgðir sem nú eru til dugi ekki út marsmánuð. Þurrkar plaga einning nágrannalöndin Sómalíu, Eþíópíu og Tansaníu og það hefur gert Keníumönnum erfiðara um vik að nálgast til að mynda vatn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×