Erlent

Of lítið af Omega 3 hefur skaðleg áhrif

MYND/STEFÁN

Börn sem fá of lítið af Omega þrír fitusýrum í móðurkviði, eru með lægri greindarvísitölu og er hættara við félagslegum vandamálum á grunnskólaaldri. Þetta eru niðurstöður breskrar rannsóknar sem tekið hefur fimmtán ár og náði til fjórtán þúsund barna.

Jákvæð áhrif ómettaðrar fitu á fullorðið fólk hafa lengi verið þekkt. Nú er alltaf að koma betur og betur í ljós að þessi áhrif eru ekki síðri á börn og það er ekki sama hvaða fitusýrur er um að ræða. Þannig virðast áhrif Omega þrír fitusýra, sem við fáum einkum úr fiski vera mun jákvæðari og víðtækari en Omega sex, sem mikið er af í alls konar jurtaolíum.

Ný víðtæk rannsókn sýnir þetta svo um munar og það sem meira er, áhrifin byrja strax í móðurkviði. Rannsóknin náði til fjórtán þúsund óléttra kvenna og fylgst var með börnum þeirra til fimmtán ára aldurs. Í ljós kom að sá hópur kvennanna sem fékk minnst af Omega þrem fitusýrum á meðan þær voru óléttar, eignuðust börn sem mældust með greindarvístölu sex prósentum undir meðallagi á grunnskólaaldri. Þá voru félagsleg vandamál þessara barna mun meiri og helmingi algengara en gengur og gerist var að þau ættu í erfiðleikum með að eignast vini. Ennfremur áttu börn þessara mæðra mun erfiðara með fínhreyfingar en börn þeirra mæðra sem fengu nóg af Omega þrem á meðan þær voru ólettar.

Rannsakendur segja niðurstöðurnar sýna að endurskoða þurfi ráðleggingar um næringu óléttra kvenna. Hingað til hefur þeim verið ráðlagt að fara varlega í fiskmeti, af hættu við eitrun vegna kvikasilfurs. Nú bendir hins vegar flest til þess að góð áhrif fiskáts séu það mikil að þeim megi ekki fórna fyrir örlitlar líkur á fórsturskaða af völdum kvikasilfurs.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×