Erlent

Ofbeldisfullir mótmælendur hertóku götur Abidjan í dag

Ofbeldisfullir mótmælendur hertóku götur Abidjan, stærstu borgar Fílabeinsstrandarinnar, í dag, fjórða daginn í röð. Friðargæsluliðar hafa þurft að beita táragasi til að halda aftur af æfum mótmælendum fyrir utan höfðustöðvar Sameinuðu þjóðanna í borginni.

Það eru stuðningsmenn Laurents Gbagbo, forseta landsins, sem hafa látið ófriðlega á götum borgarinnar. Mótmælin hófust á mánudag eftir að alþjóðlegir samningamenn, sem njóta stuðnings Sameinuðu þjóðanna, lögðu til að þing landsins fengi umboð sitt ekki endurnýjað en það rann út fyrir skömmu.

Stuðningsmenn Gbagbo eru fjölmennir á þingi og það talið síðasta vígi forsetans og því hefur tillagan reitt stuðningsmenn hans til reiði. Þeir réðust því að höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í borginni í dag og þurfti að beita táragasi til að halda aftur af þeim. Mótmælendur segja Sameinuðu þjóðirnar og samningamenn á bandi uppreisnarmanna sem náður norðurhluta landsins á sitt vald í borgarastyrjöld á árunum 2002 til 2003.

 

 

Þá tókust friðarsamningar og hefur landinu hefur síðan þá verið skipt milli stjórnvalda og skæruliða. Franskir hermenn og friðargæsluliðar Sameinuðu þjóðanna eru hluti af 10.000 manna herliði í landinu. Fílabeinsströndin hefur rambað á barmi styrjaldar síðan Gbagbo forseti frestði þingkosningum sem áttu að fara fram í október. Hann gaf þá skýringu að uppreisnarmenn hefðu ekki afvopnast.

 

 

Forsetinn, Olusegun Obasanjo, forsætisráðherra, og yfirmaður Sameinuðu þjóðanna í landinu héldu í gær neyðarfund vegna ástandsins. Eftir hann sendi Gbagbo frá sér yfirlýsingu þar sem stuðningsmenn hans voru hvattir til að láta af mótmælum sínum. Svo virðist þó sem þeir ætli ekki að verða við óskum leiðtoga síns.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×