Erlent

Refsiaðgerðir mögulegar gegn Hvíta-Rússlandi

Alexander Lúkasjenko, forseti Hvíta-Rússlands.
Alexander Lúkasjenko, forseti Hvíta-Rússlands. MYND/AP

Evrópusambandið segir afar líklegt að gripið verði til einhverra refsiaðgerða gegn Hvíta-Rússlandi í ljósi úrslita forsetakosninga þar í landi í gær. Alexander Lúkasjenko, sitjandi forseti, var endurkjörinn með yfirburðum. Andstæðingar forsetans segja brögð hafa verið í tafli og vilja að boðað verði til nýrra kosninga.

Kjörstjórn Hvíta Rússlands tilkynnti snemma í morgun að Alexander Lúkasjenko hefði verið endurkjörinn með 82,6% atkvæða. Næstu hefði komið helsti andstæðingur forsetans, Alexander Milinkevitjs, með 6% atkvæða. Lúkasjenko mun því sitja í embætti þriðja kjörtímabilið í röð en hann hefur leitt þjóðina frá árinu 1994.

Stjórnarnadstaðan í Hvíta-Rússlandi segir framkvæmd kosninganna meingallaða og brögð í talfi. Þess er krafist að kosið verði að nýju. Um það bil tíu þúsund stuðningsmenn stjórnarandstöðunnar komu saman á Októbertorginu í miðborg Minsk í gærkvöldi og nótt til að mótmæla úrslitunum þrátt fyrir að fjöldafundir væru bannaðir.

Yfirmaður leyniþjónustunnar í Hvíta-Rússlandi sagði í síðustu viku að mótmælendur yrðu meðhöndlaðir sem hryðjuverkamenn þar sem þeir ætluðu sér að koma forsetanum frá völdum með óheiðarlegum hætti. Ekki kom þó til átaka í nótt.

Fulltrúar frá Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu höfðu eftirlit með kosningunum í gær. Stofnunin mun gefa álit sitt á framkvæmd þeirra síðar í dag og búist við að sú skýrsla verði harðorð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×