Innlent

Úrskurður kveðinn upp í dag

Saksóknari, verjandi og Jón Ásgeir Tekist var harkalega á um frávísunarkröfu verjanda fyrir dómi.
Saksóknari, verjandi og Jón Ásgeir Tekist var harkalega á um frávísunarkröfu verjanda fyrir dómi. MYND/GVA

Arngrímur Ísberg, dómari í Baugsmálinu, kveður í dag upp úrskurð um það hvort endurákærum í Baugsmálinu verði vísað frá dómi eða ekki. Verjendur ákærðu í málinu, Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, Tryggva Jónssonar og Jóns Geralds Sullenberger, kröfðust þess að endurákærum í málinu yrði vísað frá dómi vegna "ágalla og viðamikilla staðreyndavillna í ákæru," eins og Gestur Jónsson, lögmaður Jóns Ásgeirs, lét hafa eftir sér fyrir dómi.

Settur saksóknari í málinu, Sigurður Tómas Magnússon, vísaði því á bug fyrir dómi að ágallar væru á ákærunum. Hann sagði að málið væri "flóknasta og viðamesta efnahagsbrotamál sem upp hefur komið á Íslandi og það er brýnt að það fái efnislega meðferð."

Fyrsti ákæruliðurinn er viðamestur en þar er Jón Ásgeir einn ákærður. Ákæran telur um tuttugu blaðsíður en fyrsti ákæruliðurinn er rúmar fjórar blaðsíður af þeim.

Þar er Jóni Ásgeiri meðal annars gefið að sök að hafa vísvitandi "beitt stjórn Baugs blekkingum í auðgunarskyni," með því að leyna því að hann væri raunverulegur seljandi hlutafjárins í Vöruveltunni, rekstrarfélags 10-11 verslananna, þegar Baugur festi kaup á rekstrarfélaginu í maí 1999.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×