Innlent

Verðum að afstýra mansali

Rannveig Guðmundsdóttir
Rannveig Guðmundsdóttir

Jafnaðarmenn í Norðurlandaráði hafa skorað á Norrænu ráðherranefndina að útbúa sameiginlega norræna verkefnaáætlun í baráttunni við mansal.

Í tillögunni, sem lögð var fram á fundi forsætisnefndar Norðurlandaráðs í Færeyjum nú í vikunni, er lögð áhersla á að mansal feli í sér alvarleg brot á mannréttindum. Vilja jafnaðarmenn með þessu stuðla að skilvirkari aðgerðum gegn mansali og markvissri viðhorfsbreytingu gegn vændi.

Samkvæmt tölum frá Sameinuðu þjóðunum þá er verslað með um átta hundruð þúsund manns á heimsvísu ár hvert. Það er talið að það sé einhversstaðar milli 120 þúsund og hálfrar milljónar í Evrópu. Þetta eru í flestum tilfellum konur og börn, segir Rannveig Guðmundsdóttir, alþingismaður, en hún er fulltrúi í forsætisnefnd Norðurlandaráðs.

Það er okkar mat að það þurfi norrænt, evrópskt og alþjóðlegt samstarf til að hægt sé að kanna flutningsleiðir og ná bakmönnunum í þessum stóru hringjum, og afstýra því að fólk og börn verði fórnarlömb mansals.

Þá segir Rannveig mjög mikilvægt að tryggja þeim sem lent hafa í mansali tímabundið dvalarleyfi í því landi sem þau eru komin til svo þau hafi tíma til að koma undir sig fótunum aftur.

Svíar eru með löggjöf sem ekkert annað Norðurlandanna hefur sett. Þar er bannað að kaupa vændi og snúa þeir þannig sökinni yfir á þann sem kaupir. Við viljum að bornar verði saman þær leiðir sem farnar eru á Norðurlöndunum og sameiginlega sé fundin besta leiðin gegn mansali og vændi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×