Innlent

Fylgi Samfylkingar ekki minna frá kosningum

Samfylking tapar miklu fylgi samkvæmt nýrri skoðanakönnun Fréttablaðsins. 24,2 prósent segjast myndu kjósa flokkinn ef boðað yrði til alþingiskosninga nú og hefur fylgið ekki mælst svo lítið frá síðustu alþingiskosningum þegar flokkurinn hlaut 33,7 prósent atkvæða. Þar til nú var minnsta fylgi flokksins í könnunum Fréttablaðsins í október 2003 þegar 28,4 prósent sögðust myndu kjósa flokkinn. Í síðustu könnun blaðsins í febrúar á þessu ári sögðust 34,4 prósent myndu kjósa Samfylkingu.

Mestu fylgi tapar flokkurinn frá síðustu könnun á landsbyggðinni eða rúm 13 prósentustig. Í síðustu könnun sögðust 30,9 prósent íbúa utan höfuðborgarsvæðisins myndu kjósa Samfylkingu en nú eru það 21,6 prósent. Þá hefur fylgi flokksins dregist saman á höfuðborgarsvæðinu um rétt rúm átta prósentustig, en nú segjast 26 prósent íbúa á höfuðborgarsvæðinu myndu kjósa Samfylkinguna.

Fylgi meðal karla hefur minnkað um rúm ellefu prósentustig; er nú 19,7 prósent en var 30,9 prósent í könnun blaðsins í febrúar. Þá segjast 29,1 prósent kvenna myndu kjósa flokkinn sem er tæplega tíu prósentustigum minna en í síðustu könnun.

Sjálfstæðisflokkurinn mælist sem fyrr með mesta fylgið og segjast 42,5 prósent myndu kjósa flokkinn yrði boðað til kosninga nú. Það eru örlítið færri en í síðustu könnun þegar 44,3 prósent sögðust styðja flokkinn. Helstu breytingarnar á fylgi Sjálfstæðisflokksins nú miðað við síðustu könnun er að heldur færri karlar segjast nú myndu kjósa flokkinn. Nú segjast 42,4 prósent karla styðja Sjálf­stæðis­flokkinn, sem er tæplega fimm prósentustigum minna en í síðustu könnun. Þá hefur fylgi meðal kvenna aukust um rétt rúmlega tvö prósentustig og segjast nú 42,6 prósent kvenna myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn.

Vinstri græn bæta nokkuð við sig frá síðustu könnun og segjast nú 14,8 prósent styðja flokkinn. Það er fimm prósentustigum meira en í könnun blaðsins í febrúar. Það verður þó að hafa í huga að fylgi vinstri grænna í febrúarkönnun blaðsins var versta útkoma flokksins síðan í október 2003.

Mest bæta vinstri græn við sig fylgi meðal karla en nú segjast 17,1 prósent karla myndu kjósa flokkinn, sem er tæplega átta prósentustigum meira en í síðustu könnun. Þá segjast 12,4 prósent kvenna myndu kjósa flokkinn. Fylgi flokksins eykst meira á höfuðborgarsvæðinu en utan þess. Nú segjast 14,7 prósent íbúa á höfuðborgarsvæðinu myndu kjósa vinstri græn, í stað 8,7 prósenta í síðustu könnun. Þá segjast 14,9 prósent íbúa utan höfuðborgarsvæðisins myndu kjósa listann í stað 11,7 prósenta.

Framsóknarflokkurinn bætir við sig fylgi frá síðustu könnun og mælist nú með 10,6 prósent og hefur flokkurinn ekki mælst með meira en tíu prósenta fylgi í könnunum Fréttablaðsins síðan í nóvember 2004, þegar 12,3 prósent sögðust myndu kjósa flokkinn. Fylgi Framsóknarflokks eykst mest á landsbyggðinni en í síðustu könnun sögðust tíu prósent íbúa utan höfuðborgarsvæðis myndu kjósa flokkinn, en nú er hlutfallið 15,9 prósent. Þá eru örlítið fleiri á höfuðborgarsvæðinu sem segjast myndu kjósa Framsóknarflokkinn, eða 7,1 prósent, en var 5,4 prósent í síðustu könnun.

Líkt og áður mælist Frjálslyndi flokkurinn með minnsta fylgið, 6,2 prósent en fylgi flokksins eykst hlutfallslega mest milli kannana. Í síðustu könnun sögðust 3,5 prósent myndu kjósa Frjálslynda flokkinn. Mest eykst fylgi flokksins á landsbyggðinni, en í síðustu könnun sögðust 2,8 prósent íbúa utan höfuðborgarsvæðis myndu kjósa flokkinn. Það hlutfall hefur aukist um 4,9 prósentustig og segjast nú 7,7 prósent íbúa landsbyggðarinnar styðja Frjálslynda flokkinn, en 5,1 prósent íbúa höfuðborgarsvæð­isins.

Hringt var í átta hundruð kjósendur miðvikudaginn 28. júní og skiptust svarendur jafnt milli kynja og hlutfallslega eftir kjördæmum. Spurt var; Hvaða lista myndir þú kjósa ef boðað yrði til kosninga nú? 65 prósent tóku afstöðu til spurningarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×