Innlent

Dadi Janki á Íslandi

Dadi Janki, indversk baráttukona á vettvangi mannréttinda, friðarmála og andlegra gilda átti í dag fund með Ólafi Ragnari Grímssyni forseta Íslands á Bessastöðum. Hún segir Íslendinga andlega þenkjandi en hún finni fyrir sorg og sársauka hér á landi. Margt sé þó hægt að gera til að bæta það.

Janki er ein af þekktustu forystumönnum veraldar á sviði andlegra og trúarlegra málefna. Níræð að aldri er hún samt óþreytt við að ferðast um heiminn og hvetja til jákvæðrar hugsunar og bættra samskipta.

Janki er önnur tveggja kvenna sem stýra Brahma Kumaris World Spiritual háskólanum sem stofnaður var á Indlandi árið 1937. Skólinn er vel þekktur á sínu sviði og sem dæmi má nefna að Sameinuðu þjóðirnar hafa leitað ráðgjafar hans þegar kemur að málefnum barna og trúar, þróunar og friðar.

Janki er nú búsett í Lundúnum og þaðan skipuleggur hún viðamikla starfsemi á vegum skólans en um sjö þúsund miðstöðvar hugleiðslu og andlegrar fræðslu starfa á hans vegum í áttatíu og fjórum löndum, þar á meðal á Íslandi.

Janki segir að hún hafi fundið fyrir því um leið og hún kom til landsins að Íslendingar væru andlega þenkjandi. Auk þess væri lítið um mengun og landið hreint og tært. Þó segist hún hafa orðið vör við sorg og mikinn sársauka hér. Margt gerist hér sem sé neikvætt. Það sé þó hægt að bæta umhverfið. Það þurfi heiðarleika og að miðal ást. Fólk eigi ekki að óttast neitt sem að þeim komi, það eigi ekki að hafa áhrif á það.

Janki segir að við Íslendingar drögumst ekki, líkt og margar aðrar þjóðir, að öllu því efnislega - og ef við áttum okkur á kostum þess þá geti margt orðið farið til betri vegar hér á landi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×