Erlent

Bandaríkjaforseti aldrei óvinsælli

Bandaríkjaforseti hefur aldrei verið jafn óvinsæll og nú og fjölgar þeim stöðugt sem krefjast þess að bandaríski herinn verði kvaddur heim frá Írak hið fyrsta. Bush segir ástandið í Írak sífellt fara batnandi og biður landa sína um að sýna stillingu.

Bush fullyrti í gær að þótt ástandið í Írak sé spennuþrungið, væri hættan á borgarastyrjöld lítil. Forsetinn hvatti landa sína og Íraka til að vera þolinmóða, á meðan verið væri að ná sátt um nýja stjórn í landinu. Sprengjutilræði í mosku sjía í Írak 22. febrúar leiddi til þess að hátt í þúsund manns hafa fallið í hefndaraðgerðum. Óttast margir að borgarastyrjöld brjótist út á milli Sjía og Súnníta en Bush segist sannfærður um að svo fari ekki. Hlutfall þeirra Bandaríkjamanna sem eru óánægðir með frammistöðu Bush hefur aldrei verið hærra en nú. Margir krefjast þess að bandaríski herinn verði kvaddur heim frá Írak hið fyrsta en samkvæmt mánaðarlegri skoðanakönnun sem Gallup gerði fyrir CNN og USAToday er aðeins rúmlega þriðjungur Bandaríkjamanna eða 36 prósent sáttur við störf Bush sem er tveimur prósentustigum minna en í síðasta mánuði. Þá ætlar ríflega helmingur aðspurðra eða 55%, að kjósa demókrata í þingkosningunum í haust en aðeins 39% repúblíkana. Hersveitir Bandaríkjamanna og Breta í Írak kunna á næstu vikum að fela heimamönnum yfirstjórn öryggismála í nokkrum héruðum landsins. Þetta sagði varnarmálaráðherra Bretlands í dag. Þá sagði hann að til stæði að fækka í herliði Breta í Írak um 800 manns. Ekkert lát virðist ætla að vera á átökum í Írak en lögreglan í Bagadad hefur fundið lík 40 manna sem höfðu verið skotnir í hinum ýmsu borgarhlutum á síðastliðnum sólarhring, þar á meðal lík fjögurra manna sem höfðu verið hengd á háspennumastur í Sadr borg. Þar féllu um 60 manns í sprengingum á sunnudag.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×