Erlent

Lík af ungabörnum fundust á heimili í Þýskalandi

Þrjú illa farin lík af ungabörnum fundust á heimili 36 ára þýskrar konu í gær. Nokkur ár virðast liðin síðan börnin voru myrt.

Lögregla komst á snoðir um málið eftir ábendingu frá fyrrverandi kærasta konunnar. Þau slitu samvistum í október og hann segist hafa komið auga á líkin þegar hann kom aftur heim til hennar nýverið til að sækja hluti sem hann hafði skilið eftir.

Við leit á heimili konunnar í Saxlandi í gær, fundust lík barnanna þriggja, tvö uppi á háalofti og bein af því þriðja í ruslatunnu. Ungabörnin tvö sem fundust vafin í umbúðir uppi á háalofti voru drengur og stúlka, en kyn þess þriðja liggur ekki fyrir. Líkin voru mikið rotin og bendir flest til að nokkur ár séu liðin síðan börnin voru drepin.

Konan var þegar handtekin og lögregla hefur yfirheyrt hana í allan dag. Enn sem komið er hefur hún neitað að tjá sig opinberlega um málið. Hún hefur verið svipt forræði yfir sonum sínum tveim, tveggja og sautján ára.

Málið minnir um margt á hörmulegan fund lögreglu í Þýsklandi á síðasta ári, þegar níu ungabörn fundust grafin í garði konu. Hún var ákærð fyrir að hafa myrt börnin níu og bíður nú dóms.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×