Erlent

Kári blæs á gagnrýni

MYND/ Gunnar V. Andrésson

Kári Stefánsson blæs á gagnrýni á erfðarannsóknir í viðtali sem birtist í netútgáfu bandaríska tímaritsins Time. Hann segir þekkingu á erfðagöllum ómetanlega, jafnvel þó að ekki séu til lyf til að lækna gallann.

Í grein Time er fjallað almennt um starfsemi DeCode og saga fyrirtækisins rakin og hugmyndir þess um sérstaka stöðu Íslands til rannsókna á erfðum. Þá víkur greinarhöfundur að gagnagrunninum, og þeirri andstöðu sem frumvarp um hann hafi mætt hér á landi. Þó er haft eftir íbúum í Reykjavík að líkega séu ekki nema tíu prósent þjóðarinnar andvíg gagnagrunninum og mótfallin því að veita íslenskri erfðagreiningu aðgang að blóðsýnum.

Spurður um hvort það sé ekki hættuleg þróun að upplýsingar um erfðasögu fólks komist í hendur tryggingafélaga eða atvinnurekenda, svarar Kári því til að Bandaríkjamenn hafi ekki þurft erfðafræðirannsóknir til að mismuna hörundsdökkum svo öldum skipti. Og Kári er sannfærður um að rannsóknir fyrirtækisins verði ómetanlegar fyrir marga, jafnvel þó að oft á tíðum sé þróun lyfja við tilteknum erfðagöllum ekki í sjónmáli. Upplýsingar um erfðagalla séu ómetanlegar fyrir einstaklinga sem þá hafa, því að vitandi um erfðagallann geti fólk í það minnsta brugðist við og breytt lífsstíl sínum, jafnvel þó að engin séu lyfin.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×