Erlent

Áströlsk mynd send inn í helfararmyndasamkeppnina án samþykkis höfundar

Michael Leunig með tvær af fígúrum sínum
Michael Leunig með tvær af fígúrum sínum MYND/AP

Ástralski skopteiknarinn Michael Leunig segir tvær af myndum hans hafa birst í blaðinu Hamshahri og á heimasíðu íranska teiknimyndasafnsins í Teheran sem eru aðalaðstandendur keppninnar. Tilvitnun í Leunig sem fylgdi myndunum er úr lausu lofti gripin. Myndirnar hafa nú verið dregnar til baka.

Myndirnar eru tvær, sú fyrri sýnir tötrum klæddan mann árið 1942 með Davíðsstjörnu á bakinu ganga að hliði Auschwitz-búða nasista þar sem á er letrað "Vinna gefur frelsi". Á þeirri seinni gengur sami maðurinn með riffil að svipuðu hliði í Ísrael sem á stendur "Stríð gefur frið" og ártalið er 2002. Myndunum tveimur var hafnað af ástralska dagblaðinu The Age árið 2002.

Dagblaðið íranska Hamshahri efndi til skopmyndasamkeppni um helförina til þess að kanna hvort hugur fylgdi máli Vesturlanda um tjáningarfrelsi eða hvort það væri orðin tóm ef gert væri grín að málefni sem væri tabú á Vesturlöndum. Úrslit í keppninni verða tilkynnt 5.maí en byrjað er að taka við myndum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×