Erlent

Byrjaðir að auðga úran

Stjórnvöld í Íran segjast vera byrjuð að auðga úran. Vestræn ríki skora á Írana að stöðva slíka vinnslu.

Íranar voru búnir að segja að þeir myndu hefja auðgun úrans færi svo að Alþjóða kjarnorkumálastofnunin kærði Írana til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Það var gert í síðasta mánuði og í dag sögðust Íranar hafa látið verða af hótun sinni. Á fundi í Moskvu í dag hvöttu forsætisráðherrar Rússlands og Frakklands Írana til þess að stöðva allar framkvæmdir við auðgun úrans þegar í stað. Vesturveldin óttast að tilgangur Írana sé að framleiða kjarnorkuvopn, en sjálfir segjast Íranar eingöngu ætla að nota kjarnorku til að framleiða rafmagn, þó að þeir áskilji sér allan rétt til að koma sér upp kjarnorkuvopnum. Rússar hafa boðist til að auðga úranið fyrir Írana, það er að úranið verði sent til Rússlands, auðgað þar að því marki sem hentar til raforkuframleiðslu, og sent aftur til Írans. Íranar hafa beðið um fund um það mál síðar í þessum mánuði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×