Erlent

Rice segir Sýrlendinga og Írana hvetja til ofbeldis

f.v. Tzipi Livni, utanríkisráðherra Ísraels, og Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna.
f.v. Tzipi Livni, utanríkisráðherra Ísraels, og Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna. MYND/AP

Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sakaði í gær stjórnvöld í Íran og Sýrlandi að hvetja til ofbeldis gegn Vesturlandabúum vegna deilunnar sem blossað hefur upp vegna birtingar skopteikninga af Múhameð spámanni.

Myndirnar hafa birst í sextán blöðum og tímaritum víðs vegar um heiminn í mánuðinum. Ásakanirnar komu í kjölfar þess að ráðist var á sendiráð Bretlands í Teheran í Íran og þar brotnar rúður. Rice var á sameiginlegum blaðamannafundi með Tzipi Livni, utanríkisráðherra Ísraels, í Washington í gær þegar hún lét þessi orð falla.

Þá hrósaði Rice þeim ríkisstjórnum sem tekið hefðu á málinu með ábyrgum hætti. Sendiherra Sýrlands í Bandaríkjunum vísaði ummælum Rice á bug og sagði að það væri nærvera bandarísks herliðs í Írak og hernám Ísraels á landi Palestínumanna sem vekti þessa andúð á Vesturlöndum.

Embættismenn og sendimenn hjá Evrópusambandinu þykjast vissir um að megnið af því ofbeldi sem beinst hefur evrópskum sendiskrifstofum í Sýrlandi, Líbanon, Íran og á Gaza-svæðinu sé runnið undan rifjum stjórnvalda því að enginn í Sýrlandi færi niður í bæ til að mótmæla án þess að einhver gæfi fyrir því leyfi.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×