Erlent

Svartfellingar kjósa um aðskilnað frá Serbíu

Ef Svartfellingar samþykkja aðskilnað þá er gamla Júgóslavía endanlega liðin undir lok. Svartfjallaland var síðast sjálfstætt ríki milli 1878 og 1918 en hefur síðan fylgt hinum fjölmennari frændum sínum í Serbíu í ríki suðurslava, Júgóslavíu.

Fólk mætti á kjörstað þegar klukkan sex í morgun að íslenskum tíma, átta að staðartíma. Kjörstöðum verður lokað klukkan sjö í kvöld að íslenskum tíma og búist er við niðurstöðum á morgun. Í Svartfjallalandi búa 620 þúsund manns. Fylkingarnar tvær, sú sem styður áframhaldandi samband við Serbíu og hin sem vill sjálfstæði, hafa verið nokkuð jafnar í skoðanakönnunum, þó stuðningsmenn sjálfstæðis virðist aðeins fleiri. Hins vegar krefst Evrópusambandið þess að 55 prósent, að minnsta kosti, segi já til þess að sambandið viðurkenni sjálfstæði Svartfjallalands. Óttast er um frið í landinu, hvernig sem fer. Hingað til hefur ekkert ríki slitið sig úr sambandsríkinu Júgóslavíu á friðsamlegan hátt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×