Erlent

Suður-Kórea hyggst verja Takeshima-eyjar

Junichiro Koizumi, forsætisráðherra Japans
Junichiro Koizumi, forsætisráðherra Japans MYND/AP

Forsætisráðherra Japans segir nauðsynlegt að sýna stillingu þrátt fyrir ummæli forseta Suður-Kóreu um að suðurkóreskar eyjar sem Japanir gera tilkall til, verði varðar með kjafti og klóm.

Forseti Suður-Kóreu, Roh Moo-huyn, sagði í sjónvarpsávarpi fyrr í dag að það að Japanir ásælist eyjarnar suður-kóresku jafngildi því að þessir fyrrverandi nýlenduherrar Kóreu hafni sjálfstæði ríkisins. Junichiro Koizumi, forsætisráðherra Japans sagði mikilvægt að halda ró sinni. "Staða landanna er ólík, en ég held að við verðum að sýna stillingu. Við getum ekki leyst öll vandamál í tengslum við samskipti landanna í einu vetfangi, en við verðum að hafa í huga hversu mikilvæg tengsl Japans og Kóreu eru."

Tomohiko Taniguchi, fréttafulltrúi japanska utanríkisráðuneytisins segir eyjarnar Takeshima óaðskiljanlegan hluta af Japan. "Það er engum blöðum um það að fletta, bæði af sögulegum ástæðum, sem og af ástæðum tengdum alþjóðarétti, að Takeshima-eyjar eru hluti af Japan. Þessa deilu verður að leysa á friðsælan hátt og það er stefna Japana að leysa þetta eftir diplómatískum leiðum og taka alla þætti til athugunar. Þetta er því áframhaldandi stefna Japana."

Deilan ýfir upp gömul sár vegna nýlenduyfirráða Japans yfir Kóreuskaganum á árunum 1910 til 1945. Upphaf ósættisins var það að Japanir tilkynntu hafrannsóknir sem þeir hygðust fyrir á svæðinu. Samkomulag varð um að Japanir hættu við rannsóknirnar ef Suður-Kóreubúar hættu við að skrá nöfn eyjanna á suður-kóresku, en eyjarnar ganga nú undir japanska nafninu Takeshima.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×