Lífið

Uppákomur um allan bæ

Mikið um dýrðir á akureyri um helgina Guðrún Þórsdóttir, verkstýra Akureyrarvöku, segir að Ráðhústorgið verði meðal annars tyrft á Akureyrarvöku og þar haldin mikil kúrekaveisla með gjörningum, gleði og glaumi allan daginn.
Mikið um dýrðir á akureyri um helgina Guðrún Þórsdóttir, verkstýra Akureyrarvöku, segir að Ráðhústorgið verði meðal annars tyrft á Akureyrarvöku og þar haldin mikil kúrekaveisla með gjörningum, gleði og glaumi allan daginn. MYND/ Jóhann Ásmundsson

Akureyrarvaka er á laugar­daginn og lýkur þar með Listasumari á Akureyri með uppákomum af ýmsum toga um allan bæ.

„Akureyrarvakan sjálf er á laugardaginn en það er hefð fyrir því að hafa setningu í Lystigarðinum á föstudagskvöldinu," segir Guðrún Þórsdóttir, verkstýra Akureyrarvöku. Sigrún Björk Jakobsdóttir bæjarfulltrúi heldur ávarp, veitt eru verðlaun fyrir fallegustu garðana og fleira, en til hliðar við formlegheitin er skemmtun fyrir alla aldurshópa.

„Við verðum með í garðinum uppákomur sem fólk getur gengið á milli, eins og sögur fyrir börnin, tónlist og vonandi eitthvað fyrir augað. Svo verður leikið fyrir dansi en það er hljómsveit Ingu Eydal sem gerir það," segir Guðrún.

Sögu Akureyrarvöku má rekja aftur til ársins 2002 og er óhætt að fullyrða að þar sé á ferðinni sannkölluð bæjarhátíð. „Akureyrarvakan er hátíð bæjarbúa og hún gerir sig í rauninni sjálf, með göldrum og ótrúlegum uppákomum. Bæjarbúar taka sig saman, fyrirtæki, einstaklingar, félög, skólar og allir eru að gera eitthvað," segir Guðrún.

Dagskráin er ótrúlega fjölbreytt og úti um allan bæinn, og segir Guðrún að erfitt sé að stikla á stóru í dagskránni. „Magnaðir óperutónleikar verða haldnir í listagilinu undir berum himni, alveg eins og í Reykjavík á Menningarnótt. Þar má búast við betri stemningu, þar sem þetta er lokaðra rými og við ætlum að bjóða upp á betra veður." Ráðhústorgið verður líka tyrft og þar verður mikil kúrekaveisla, gjörningar, gleði og glaumur allan daginn. Myndlistarsýningar eru opnaðar úti um allan bæ, fjölskylduhátíðir haldnar á bílaplönum og að Hömrum, inni og úti og tónlistaratriði úti um allt, að ógleymdri draugagöngu Minjasafnsins og Leikfélagsins.

Guðrún segir að ótrúlega margt sé að gerast og í rauninni miklu meira en kemur fram í auglýstri dagskrá Akureyrarvöku. „Ef þú ert með eitthvert atriði mætir þú bara og stingur í samband ef þú sérð eitthvað plögg," bætir hún hlæjandi við.

Lokaatriði hátíðarinnar hefst með því að fólk safnast saman fyrir framan arkítektastofuna Kollgátu. „Þetta eru gamlar kartöflugeymslur þar sem fólk mun safnast saman og verður gengið fylktu liði með blysum og trumbuslætti niður göngugötuna og inn á torg. Þar hefst lokaatriðið, punkturinn yfir i-ið, en að því standa ótal margir aðilar." Sýningarstjórn er í höndum Þorbjargar Halldórsdóttur, sem kölluð er frúin í Hamborg, og má búast við atriðum úr ýmsum áttum.

Dagskrá Akureyrarvöku má nálgast á heimasíðu Akureyrarbæjar og í blaðinu Dagskráin sem gefið er út á Akureyri.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.