Innlent

Engar athugasemdir við byggingu tónlistarhússins

TÖLVUMYND/Portus

Engar athugasemdir bárust við byggingu nýs tónlistar- og ráðstefnuhúss sem rísa mun í miðbæ Reykjavíkur. Þetta er meðal þess sem fram kom á aðalfundi Þróunarfélags miðborgarinnar sem lauk um kvöldmatarleytið.

Fundurinn var haldinn í hjarta Reykjavíkur, í húsakynnum Iðnó við Tjörnina. Þróunarfélag miðborgarinnar er hagsmunasamtök atvinnurekenda og íbúa í þessum hluta borgarinnar en yfirlýst hlutverk þess er að efla miðborgina sem miðstöð stjórnsýslu, menningarlífs, verslunar og þjónustu.

Í máli formanns og framkvæmdastjóra félagsins kom meðal annars fram að í fyrra fjölgaði verslunum í miðborginni frá árinu 2004, en reyndar eins lítið og hægt er, eða um eina verslun. Þær eru nú því 305 talsins. Þetta er annað árið í röð sem verslunum fjölgar í miðbænum en í átta ár þar á undan fækkaði verslunum.

Þá kom fram á fundinum að framtíð Kolaportsins er í töluverðri óvissu vegna fyrirhugaðra framkvæmda í miðbænum í tengslum við byggingu hins nýja tónlistar- og ráðstefnuhúss. Samningur um rekstur Kolaportsins á jarðhæð Tollhússins við Tryggvagötu rennur út um mitt næsta ár, og á huldu er hvað þá verður um þennan sívinsæla markaðar.

Á fundinum í Iðnó var einmitt líka kynnt hin fyrirhugaða bygging tónlistar- og ráðstefnuhússins sem rísa á við Reykjavíkurhöfn. Í máli Stefáns Þórarinssonar, varaformanns stjórnar Portus hf. sem sér um framkvæmdina, kom meðal annars fram að búist er við allt að þriggja milljarða króna gjaldeyristekjum af starfsemi hússins og tengdri þjónustu eftir að framkvæmdum lýkur, og að hátt í þúsund ný störf verði til.

Í lok fundar Þróunarfélags miðborgarinnar héldu framsögu allir oddvitar flokkanna sem bjóða fram í borgarstjórnarkosningunum í vor og kom fram í máli fulltrúa Samfylkingarinnar að frestur til að skila inn athugasemdum um byggingu tónlistarhússins rann út klukkan sex í kvöld, og á sjötta tímanum hafði engin athugasemd borist.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×