Innlent

Náin tengsl milli jafnréttis kynjanna og velferðar barna

Náin tengsl eru á milli jafnréttis kynjanna og velferðar barna samkvæmt nýrri skýrslu Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, UNICEF, sem gefin er út á 60 ára afmæli samtakanna.

Í skýrslunni er greint frá aðstæðum barna um allan heim út frá tíðni ungbarnadauða, lífslíkum, heilsu og menntun svo fátt eitt sé nefnt. Í tilkynningu frá UNICEF á Íslandi kemur fram að aðstæður barna á Íslandi séu góðar í samanburði við önnur lönd heims og enn sé Ísland meðal þeirra landa sem hafa lægsta tíðni ungbarnadauða.

Þá er bent á í skýrslunni að jafnrétti kynjanna og aukin völd kvenna í heiminum séu mikilvæg fyrir heilbrigði og þróun fjölskyldna, samfélaga og þjóða. Enn fremur segir þar að þrátt fyrir að ákveðnar framfarir hafi orðið á réttindum kvenna á síðustu áratugum geti milljónir stúlkna og kvenna enn ekki lifað lífi sínu til fulls vegna mismununar, lítilla valda og fátæktar.

Sjúkdómar eins og HIV og alnæmi hafi mikil áhrif á líf kvenna og nánast alls staðar í heiminum fái konur lægri laun en karlar fyrir sömu störf. Milljónir kvenna um allan heim þurfi að þola líkamlegt og kynferðislegt ofbeldi án þess að hafa greiðan aðgang að réttarkerfinu. Þá hefur mismunin þa áhrif að nærri ein af hverjum fimm stúlkum sem skráir sig í grunnskóla í þróunarlöndunum lýkur ekki grunnmenntun.

Í skýrslunni eru nefndar sjö aðferðir sem geta aukið jafnrétti kynjanna:

1. Afnám skólagjalda er lykilatriði og hvetja verður foreldra og samfélög til að fjárfesta í menntun stúlkna.

2. Samþætta verður markmið um útrýmingu kynjamisréttis við fjárhagsáætlanir og fjárlög ríkisstjórna.

3. Lög er varða eignir og erfðarétt skulu tryggja jafnan rétt kvenna. Einnig verður að koma á aðgerðum til að koma í veg fyrir og bregðast við heimilisofbeldi og kynbundnu ofbeldi í stríðum.

4. Kvótar hafa sannað sig sem aðferð til að tryggja þátttöku kvenna í pólitík. Af 20 löndum, sem hafa hæsta hlutfall kvenna á þingi, eru 17 þeirra sem nota einhvers konar afbrigði af kvóta.

5. Grasrótarsamtök kvenna hafa reynst góður málsvari fyrir réttindum kvenna og ætti að auka þátttöku þeirra í stefnumótun stjórnvalda svo að verkefni séu hönnuð með þarfir kvenna og barna í huga.

6. Að mennta karla og drengi, sem og konur og stúlkur, um kosti kynjajafnréttis og sameiginlegar ákvarðanatökur getur ýtt undir betra samstarf.

7. Nauðsynlegt er að bæta rannsóknir og tölulegar upplýsingar um mæðradauða, ofbeldi gegn konum, menntun, atvinnuþátttöku, laun, ólaunaða vinnu kvenna og þátttöku í stjórnmálum.

Í skýrslunni kemur fram að konur eru útilokaðar frá mikilvægum ákvarðanatökum innan veggja heimilisins, sem hefur slæm áhrif á börn. Í tíu af 30 þróunarlöndum, sem skoðuð voru, höfðu aðeins 50 prósent kvenna eitthvað að segja um ákvarðanir heimilisins, þ.e. um fjárútlát, eigin heilsuvernd eða heimsóknir til vina eða ættingja.

Í tilkynningu UNICEF er bent á að rannsókn á vegum International Food Policy Institution segi að ef karlmenn og konur hefðu jafnmikil völd í ákvarðanatökum myndi vannærðum börnum undir þriggja ára fækka um 13 prósentustig í Suður-Asíu. Það myndi leiða til þess að 13,4 milljónum færri börn yrðu vannærð á svæðinu. Í sunnanverðri Afríku fengju 1,7 milljónir barna betri næringu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×