Lífið

Atvinnumál og alþjóðavæðing

Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir Fyrsta vetrarfundur Femínistafélags Íslands fjallar um atvinnumál kvenna í tengslum við alþjóðavæðingu.
Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir Fyrsta vetrarfundur Femínistafélags Íslands fjallar um atvinnumál kvenna í tengslum við alþjóðavæðingu. MYND/Teitur

Fyrsti opni vetrarfundur Femínistafélags Íslands fer fram á Thorvaldsen Bar í kvöld en þar verður rætt um málefni kvenna í tengslum við hnattvæðingu og atvinnumál.

"Umræðuefni kvöldsins er raunar tvíþætt," útskýrir Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir hjá Femínistafélaginu. "Annars vegar hefur verið rætt talsvert undanfarið um málefni tveggja erlendra kvenna sem neitað var um dvalarleyfi hér á landi eftir að hafa komið úr ofbeldisfullum hjónaböndum með íslenskum mönnum og hins vegar hafa skapast líflegar umræður um heimilishjálp á póstlista Femínistafélagsins og því munum við helga þetta fyrsta "hitt" alþjóðavæðingu og kynjavídd hennar."

Steinunn bendir á að margar erlendar konur hafi tekið að sér þrif á heimilum Íslendinga en slík vinna sé oft ekki gefin upp og því njóti slíkir starfskraftar ekki trygginga og réttinda sem lögleg atvinna veitir. "Þetta er áhugavert í samhengi við baráttu verkalýðsfélaganna sem hafa undanfarið barist gegn undirboðum og svartri vinnu. Þar er í langflestum tilvikum um karlastörf að ræða en konur hafa verið í meirihluta erlends vinnuafls hér á landi þar til virkjunarframkvæmdirnar fóru í gang. "Mér að vitandi hefur ekki verið gerð úttekt eða rannsókn á þessum óopinbera geira atvinnumarkaðarins hérlendis og því er ekki hægt að segja til um hversu algengt þetta er," útskýrir Steinunn.

Frummælendur á fundinum í kvöld verða Silja Bára Ómarsdóttir, forstöðumaður Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands, sem mun fjalla um alþjóðavæðinguna og áhrif hennar á stöðu kvenna; Tatjana Latinovic, formaður Félags kvenna af erlendum uppruna, ræðir um stöðuna hér á landi og hvernig okkur tekst að gera Ísland að fjölmenningarsamfélagi og að lokum mun Margrét Steinarsdóttir, lögfræðingur hjá Alþjóðahúsi, fjalla um lagalegar hliðar og mál þau sem koma til kasta Alþjóðahússins.

Fundurinn er öllum opinn en hann hefst kl. 20 í Bertelstofu en að loknum erindum verða umræður þar sem gestum gefst gott tækifæri til að kryfja málin.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.