Erlent

Þóttist vera Íslendingur

Íranskir lögreglumenn við sendiráð Dana í Teherean í fyrrakvöld.
Íranskir lögreglumenn við sendiráð Dana í Teherean í fyrrakvöld. MYND/AP

Trúlega varð það norsku blaðakonunni Line Fransson til lífs að hún þóttis vera Íslendingur meðal æstra mótmælenda í Íran í fyrrakvöld. Line greinir frá þessu í pistli sínum á vefsíðu norska blaðsins Dagbladet. Fransson er nú stödd í Teherean og fylgist með mótmælum múslima þar vegna skopmyndanna af Múhameð spámanni sem Jótlandspósturinn birti fyrir nokkrum mánuðum.

Fimm konur klæddar svörtum slæðum spurðu túlk blaðakonunnar hvaðan hún væri og svaraði hann því til að hún væri frá Íslandi. Svarið sem hún fékk var: "Gott. Ef þú hefðir verið frá Danmörku hefðum við drepið þig."

Line heyrði á tali manna að Íranar töldu Dani ekkert hafa að gera í Íran eftir myndbirtingu Jótlandspóstsins. Hún hafi verið ófyrirgefanleg og því sé rétt að brenna sendiráð þeirra.

Lögregla og óeinkennisklæddir verðir höfðu varað Line við því að vera á ferð í bænum á þessum tíma þar sem hún væri vestræn kona. Hún lét þær aðvaranir þó ekki aftra sér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×