Innlent

Fiskiðnaður á flótta af höfuðborgarsvæðinu

Útlit er fyrir að fiskiðnaður, sem stóriðja, leggist endanlega af í Reykjavík ef KB banki nær meirihluta í HB Granda, eins og bankinn stefnir að. Bankinn er orðinn annar stærsti hluthafi í HB Granda með 30 prósenta hlut.

KB banki, sem hóf að safna hlutabréfum í HB Granda fyrir rúmu ári, á nú orðið um þrjátíu prósenta hlut í félaginu. Það gerðist í gær þegar bankinn eignaðist fimm prósenta hlut dótturfélags Sjóvár í HB Granda og er þar með orðinn annar stærsti hluthafi í HB Granda, á eftir Vogun, sem á 35 prósenta hlut. Í viðskiptaheiminum er talið líklegt að bankinn hafi sérstakan augastað á svæðinu á Norðurgarði, þar sem fiskiðjuverið og bræðslan eru núna, með það fyrir augum að breyta nýtingu svæðisins.

Það er gegnt væntanlegu ráðstefnu- og tónlistarhúsi við Austurhöfnina og því spennandi staður í mörgu tilliti. Fréttablaðið rifjar það upp í dag að í þriggja ára skýrslu greiningardeildar KB banka um HB Granda segir að staðsetning vinnslunnar á Norðurgarði sé að margra mati afar eftirsóknarverð ef horft er nokkur ár fram í tímann.

Fiskiðjuver HB Granda, eða Ísbjarnarins eins og það hét, yrði ekki fyrsta fiskiðjuverið í Reykjavík sem viki fyrir annari notkun. Þannig var fiskiðjuverinu á Kirkjusandi breytt í höfuðstöðvar Sambandsins og hýsir nú höfuðstöðvar Glitnis. Í húsi fiskiðjuvers Bæjarútgerðar Reykjavíkur er nú meðal annars sjóminjasafn og safnaðarheimili Ásatrúarmanna, og þar skammt frá var margra hæða fiskiðjuver Hraðfrystistöðvarinnar í Reykjavík brotið til grunna fyrr á árinu til að rýyma svæðið fyrir íbúðabyggð. Talsmenn KB banka hafa ekki viljað tjá sig um áform sín um HB Granda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×