Lífið

Stofnandi Atlantic Records látinn

Ertegun, til hægri ásamt Mick Jagger og Jann Wenner, stofnanda tímaritsins Rolling Stone.
Ertegun, til hægri ásamt Mick Jagger og Jann Wenner, stofnanda tímaritsins Rolling Stone. MYND/AP

Annar af stofnendum Atlantic Records, Ahmet Ertegun, er látinn, 83 ára gamall. Ertegun átti stóran þátt í að gera Ray Charles og Arethu Franklin að stjörnum, auk þess sem hann gerði plötusamning við The Rolling Stones snemma á áttunda áratugnum.

Ertegun meiddist á höfði þegar hann datt á tónleikum Stones í New York í október. Fór hann í dá og lést síðan í kjölfarið.

Ertegun var mikill djassáhugamaður. Hann flutti til Bandaríkjanna ellefu ára þegar faðir hans gerðist sendiherra Tyrklands í landinu. Ertegun stofnaði Atlantic Records ásamt Herb Abramson árið 1947. Fljótlega gerðu þeir samning við stór nöfn á borð við Dizzy Gillespie og Duke Ellington og smám saman varð fyrirtækið stærra. Gerðu þeir m.a. samning við Led Zeppelin.

Fyrirtækið er nú hluti af Warner Music Group sem hefur á sinni könnu listamenn á borð við Kid Rock, James Blunt og Missy Elliott.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.