Innlent

Ekkert að gerast í varnarviðræðum

Brottför bandaríska varnarliðsins frá Íslandi gengur mun hraðar en íslensk stjórnvöld hefðu getað gert sér grein fyrir. Forsætisráðherra segir ekkert nýtt að gerast í varnarviðræðunum.

Það var í marsmánuði sem bandarísk stjórnvöld tilkynntu Íslendingum að orrustuþotur og björgunarþyrlur bandaríkjahers á Keflavíkurflugvelli yrðu fluttar á brott frá Íslandi fyrir lok september á þessu ári.

Ákvörðunin var tekin einhliða af bandarískum stjórnvöldum en samningaviðræður um veru hersins á Íslandi höfðu staðið um nokkurt skeið.

Í framhaldinu hófst samningaferli milli íslenskra stjórnvalda og bandarískra um framtíð varnarsamningsins.

Nokkuð er síðan að allir íslenskir starfsmenn Varnarliðsins fengu sent uppsagnarbréf og unnið hefur verið hratt að flutningi herliðsins frá landinu.

Bæði Geir H. Haarde, utanríkisráðherra, og Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra segja ekkert nýtt að frétta af varnarviðræðunum en síðasti fundur í málinu var í lok apríl.

Halldór Ágrímsson, forsætisráðherra, segir það eina sem sé ljóst sé að Bandaríkjaher sé að flytja sitt lið á brott. Hann telur undirbúning að hálfu íslenskra stjórnvalda í lagi en Bandaríkjamenn fari hraðar í málið en hann hefði nokkurn tímann getað gert sér grein fyrir og hann sé mjög óánægður með það.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×