Lífið

Hamskipti í Hammersmith

Frá sýningunni. Gísli Örn í í loftköstum og skuggi pöddunnar í baksýn
Frá sýningunni. Gísli Örn í í loftköstum og skuggi pöddunnar í baksýn

Bresku blöðin eru tekin að birta umsagnir um sviðsetningu Vesturports á Hamskiptunum eftir Kafka. Verkið hóf göngu sína með forsýningum í Lyric-leikhúsinu í Hammersmith , en samstarfsmaður Gísla Arnar Garðarssonar sem leikur og leikstýrir, David Farr, er leikhússtjóri þar.

Dómar hafa birst í þremur blöðum en Vesturport er annar framleiðandi á sviðsetningu Gísla og David. Í leikhópnum eru Ingvar E. Sigurðsson og Nína Dögg auk enskra leikara.

Gagnrýnandi Independent fer hörðum orðum um tiltækið: leikstjórar sýni Kafka enga virðingu og noti hann sem æfingadýnu.

Í Daily Mail er sýningin kölluð töfrandi meistaraverk. Leikstjórn og tónlist Nicks Cave fá hástemmt lof.

Hinn virti gagnrýnandi Michael Billington sem hingað kom í haust og lauk miklu lofsorði á Pétur Gaut í Þjóðleikhúsinu segist líka hrifinn í dómi sínum í Guardian.

Hamskiptin verða á fjölum Lyric til 29. október. Nokkur vegur er þangað frá miðborg Lundúna, en í leikhúsinu hafa íslenskir leikarar áður unnið. Gunnar Eyjólfsson lék þar eftir stríð og kom þangað aftur á níunda áratugnum þegar hann, Steinunn Ólína og Baltasar léku þar í Meistaranum eftir Hrafnhildi Hagalín.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.