Erlent

Samráð Bandaríkjanna, Ísraela og Breta

MYND/AP

Framkvæmdastjóri Arababandalagsins, segir Bandaríkjamenn og Breta bera ábyrgð á árás Ísraelsmanna á fangelsi Palestínumanna í Jeríkó og þeim átökum sem urðu í kjölfarið. Hann segir ljóst að einhverskonar samráð hafi átt sér stað milli þeirra og Ísraela.

Palestínumennirnir sex sem gáfust upp fyrir ísraelska hernum eftir daglangt umsátur um fangelsið sem þeir sátu í verða kvaddir fyrir ísraelskan dómstól og látnir svara til saka fyrir morð á ferðamálaráðherra Ísraels, Rehavam Zeevi, árið 2001. Frá þessu greindi ísraelskur embættismaður í gærkvöld. Ísraelsmenn réðust á fangelsið til að handsama Ahmed Saadat, leiðtoga Alþýðufylkingarinnar til frelsunar Palestínu, og fimm menn aðra sem sakaðir eru um morðið sem átti sér stað fyrir fimm árum. Bretar og Bandaríkjamenn hafa haft eftirlit með fangelsinu samkvæmt sérstöku samkomulagi við heimastjórn Palestínumanna en eftirlitsmenn þeirra voru farnir þegar Ísraelsmenn réðust á fangelsið. Amr Moussa, framkvæmdastjóri Arababandalagsins hvetur alþjóðasamfélagið til að fordæma árásina á fangelsið. Mikil reiði greip um sig meðal Palestínumanna eftir árásina á fangelsið. Þúsundir manna gengu um götur og hrópuðu slagorð gegn Ísrael og var kveikt í bústað bresku sendinefndarinnar á Gaza. Þá voru að minnsta kosti tíu útlendingar teknir gíslingu á Vesturbakkanum, en nokkrum þeirra hefur þó verið sleppt. Enn er þó í haldi bandarískur háskólaprófessor og segja uppreisnarmennirnir hann verða drepinn, verði Ahmed Saadat og fylgismönnum hans gert mein.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×