Innlent

Þurfum að draga úr þorskveiðum

Hafrannsóknastofnun lagði til í dag að þorskkvóti fyrir næsta fiskveiðiár verði 11 þúsund tonnum minni en nú í ár, eða 187 þúsund tonn. Aflahlutfallið þarf að skerðast enn frekar til að byggja upp hrygningarstofninn, að mati Hafró.

Í skýrslu Hafrannsóknarstofnunar sem kynnt var í dag kemur fram að ástand þorskstofnsins er undir langtímameðaltali, nýliðun, hrygningarstofn og veiðistofn. Þó ekki sé fyrirséð hrun, þá þrýstir Hafrannsóknarstofnun á stjórnvöld að endurskoða aflaregluna og lækka aflahlutfallið.

Sjórinn í kringum okkur hefur verið hlýr undanfarið og það hefur ýmis góð tíðindi í för með sér. Ýsustofninn er stór, þó að stærð fisksins sé undir meðallagi. Ufsastofninn stendur einnig vel og er í vexti. Sumargotssíldin hefur verið skynsamlega nýtt og stofninn stendur vel. Skötuselurinn er að breiðast hratt út um Íslandsmið í kjölfar hlýnandi sjávar og kolmunninn gengur nú meira inn í íslenska lögsögu.

Hins vegar eru rækjustofnar eru með slakasta móti. Grálúðustofninn stendur afar illa og er lagt til að ekkert verði veitt úr honum. Úthafskarfastofninn er veikur og er lagt til að hann verði friðaður um sinn. Loðnan hefur varla fundist til rannsókna eða veiða og er því lítið vitað um ástand loðnustofnsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×