Innlent

Hefur sótt um ríkisborgarrétt

MYND/GVA

Dorrit Moussaieff forsetafrú hefur lagt inn umsókn um íslenskan ríkisborgararétt til dómsmálaráðuneytisins. Hins vegar er ekki búist við að hún verði afgreidd fyrr en eftir átta til tólf mánuði.

Eins og greint var frá í fréttum fyrir hálfum mánuði var Dorrit Moussaieff forsetafrú kyrrsett í nokkrar klukkustundir á ísraelskum flugvelli. Kröfðust landamæraverðir þess að hún framvísaði ísraelsku vegabréfi, en hún er fædd þar í landi, en hún var með breskt vegabréf. Dorrit lýsti því yfir í viðtali við NFS eftir atvikið hún hygðist sækja um íslenskan ríkisborgararétt.

Forsetahjónin fögnuðu nýlega þriggja ára brúðkaupsafmæli sínu og samkvæmt íslenskum lögum gat Dorrit sótt um ríkisborgararétt í kjölfar þess. Það gerði hún í upphafi vikunnar að sögn Örnólfs Thorssonar forsetaritara og liggur umsókn hennar nú hjá dómsmálaráðuneytinu.

Afgreiðsla slíkra umsókna tekur hins vegar sinn tíma og þær upplýsingar fengust í dómsmálaráðuneytinu að á bilinu átta til tólf mánuðir gætu liðið þar til umsóknin yrði afgreidd. Umsóknir um ríkisborgararétt þyrfti meðal annars að senda til umsagnar hjá lögreglu eða sýslumanni og hjá Útlendingastofnun. Um væri að ræða ferli sem tæki sinn tíma og ef umsókn er samþykkt lýkur henni með undirskrift dómsmálaráðherra. Miðað við þetta má forsetafrúin ekki vænta ríkisborgararéttar fyrr en einhvern tíma á næsta ári.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×