Lífið

Vesturportsprinsessa fædd

Gísli Örn nefndi dóttur sína eftir systur sinni, Rakel Garðarsdóttur.
Gísli Örn nefndi dóttur sína eftir systur sinni, Rakel Garðarsdóttur.

Vesturportsparinu Gísla Erni Garðarssyni og Nínu Dögg Filippusdóttur fæddist lítil stelpa á fimmtudaginn, en hún er fyrsta barn þeirra hjóna. Prinsessan hefur hlotið nafnið Rakel María, og heitir þar með í höfuðið á föðursystur sinni, Rakel Garðarsdóttur sem er framkvæmdastjóri Vesturports.

Rakel var að vonum stolt af nöfnu sinni og sagði alla vera við hestaheilsu þegar Fréttablaðið náði tali af henni í gær, en hún var þá búin að heilsa upp á splunkunýja frænku sína. „Hún er bara lítil, sæt stelpa. Falleg og eiturhress,“ sagði hún sposk.

Rakel María var einar 16 merkur þegar hún kom í heiminn. „Þetta er stór og stæðileg stelpa,“ sagði Rakel hin eldri. „Það eru náttúrulega allir í skýjunum með þetta, eins og alltaf þegar börn fæðast. Það er voða sjaldan eitthvað annað í gangi,“ bætti hún við.

Nína Dögg hefur haft hægt um sig að undanförnu, og dvaldist til dæmis heima við á meðan Vesturport lagðist í leikleiðangur um Evrópu. Í síðasta afkvæmi Vesturports, kvikmyndinni Börnum, fór Nína Dögg hins vegar á kostum í hlutverki fjögurra barna móður og hefur því einhverja reynslu af hlutverkinu sem hún spreytir sig nú á í veruleikanum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.