Viðskipti innlent

CCP verður útskrifað í janúar

Hilmar V. Pétursson, framkvæmdastjóri ccp Félagið telst ekki lengur vera sprotafyrirtæki eftir að velta félagsins fór yfir einn milljarð króna.
Hilmar V. Pétursson, framkvæmdastjóri ccp Félagið telst ekki lengur vera sprotafyrirtæki eftir að velta félagsins fór yfir einn milljarð króna.

CCP verður útskrifað úr samtökum sprotafyrirtækja (SSP) eftir að velta félagsins fór yfir einn milljarð króna á þessu ári. Hilmar Veigar Pétursson, framkvæmdastjóri CCP, segir að sprotafyrirtæki sé skilgreint sem fyrirtæki er hafi veltu undir einum milljarði króna og býst við útskriftarathöfn í janúar.

„Við viljum hvetja önnur íslensk sprotafyrirtæki til þess að fylgja í okkar fótspor. Ef við getum þetta þá hljóta fleiri að geta það líka.“

Rekstur félagsins hefur gengið vel á þessu ári. Velta CCP nam um 1,3 milljörðum króna á fyrstu níu mánuðum ársins og var hagnaður á sama tíma um 370 milljónir króna. CCP hefur vaxið gríðarlega á þessu ári en velta alls síðasta árs var 700 milljónir króna. „Leikjabransinn er svona, þú tekur inn í kassann á ákveðnum tímabilum og ferð svo út í endurfjárfestingar.“

CCP kynnti nýja útgáfu af netleiknum EVE-online þann 28. nóvember og hafa 300-400 nýir þátttakendur bæst við á hverjum degi.

Nýtt heimsmet var slegið á sunnudaginn þegar 33 þúsund manns voru að spila á sama tíma. „Fyrra metið var 30 þúsund manns þannig að þetta er töluverð bæting. Það fylgir þessum nýju útgáfum að menn verða spenntir og fara að spila á fullu.“ Hilmar bendir á að enginn annar leikur leyfir svona mikla þátttöku á sama tíma á sama miðlara (server).

„Samkeppnisaðilar okkar leyfa vanalega þrjú til fimm þúsund manns að spila samtímis á sama server.“

Erlendir fjárfestar hafa sýnt félaginu áhuga og hefur General Catalyst Partners, bandarískur fjárfestingasjóður, eignast fimmtán prósenta hlut í CCP.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×