Lífið

Barnsföður Kate Moss ekki hleypt inn á Rex

Ritstjórinn og fyrirsætan. Jefferson Hack og kærustu hans Anouk var vísað frá Rex fyrir leiðan miskilning.
Ritstjórinn og fyrirsætan. Jefferson Hack og kærustu hans Anouk var vísað frá Rex fyrir leiðan miskilning.
"Þetta var bara leiður misskilningur," segir Sverrir Rafnsson, eigandi Rex, þegar hann er spurður hvort stjörnuritstjóranum Jefferson Hack og kærustu hans, ofurfyrirsætunni Anouk, hafi ekki verið hleypt inní eftirpartí hjá Sykurmolunum eftir velheppnaða endurkomu þeirra á föstudagskvöldinu.

"Stúlkan sem var með gestalistann skrapp aðeins frá og þegar þessi umræddi maður kom ásamt kærustu sinni könnuðust dyraverðirnir ekkert við hann þegar hann vildi komast fram fyrir röðina," heldur Sverrir áfram og bætir því við að röðin hafi verið ansi löng þetta kvöld. "Þegar honum var meinuð innganga lét þessi maður og stúlkan sig bara hverfa," útskýrir Sverrir en brottför ritstjórans vakti hörð viðbrögð hjá vinum ritstjórans sem sátu í hlýjunni á skemmtistaðnum.

Jefferson Hack er einhver virtasta tískulögga heims í dag og stofnaði meðal annars hið virta tímarit Dazed & Confused sem þykir leggja línurnar fyrir það sem koma skal í tísku, lífstíl og jaðarmenningu. Hack komst á forsíður allra helstu slúðurblaða heimsins fyrir fjórum síðan þegar hann og fyrrum kærasta hans, ofurfyrirsætan Kate Moss, eignuðust saman dótturina Lilly Grace en Moss hefur verið töluvert í fréttum að undanförnu vegna fíkniefnamisferlis og sambands síns við dóphausinn Pete Doherty.

Hack er mikill Íslandsvinur og er góðvinur Bjarkar Guðmundsdóttur, söngkonu Sykurmolanna. Hann hefur heimsótt landið oft og mörgum sinnum og eignast hér mikið af kunningjum. Hann var hingað kominn sérstaklega vegna tónleika Sykurmolanna og eftir að hafa verið vísað burt frá Rex hélt hann rakleiðis upp á hótelherbergi og fór heim um morguninn. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins gerði Hack sér dagamun á föstudeginum fyrir tónleikanna og kíkti meðal annars í hátískuverslunina Liborius og hreifst mjög af því fataúrvali sem í boði var. Verður hins vegar forvitnilegt að sjá hvort þessari Íslandsferð og heldur snautlegri viðkomu á skemmtistaðnum Rex verði gerð einhver skil í tímariti Hack.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.