Lífið

Gussi úti í kuldanum hjá Hemma

Gussi. Var góðu heilli betur klæddur en þetta þegar hann hékk í frostinu.
Gussi. Var góðu heilli betur klæddur en þetta þegar hann hékk í frostinu.

„Mér var orðið dálítið kalt á þumalputta hægri handar en annars hafði ég það bara fínt," segir Gunnar Jónsson, yfirdyravörður á Kaffi Oliver, var hífður upp í 30 metra hæð fyrir framan NASA á Austurvelli á fimmtudagskvöld. Þar var hann látinn hanga í fimbulkulda og roki í eina klukkustund í sex stiga frosti og talsverðum vindi.

Það var sjálfur Hemmi Gunn sem fékk Gussa í uppátækið, sem kallaðist Karlinn í krapinu. Á meðan Gussi dinglaði í kalsanum hafði Hemmi ofan af fyrir sjónvarpsáhorfendum sem fengu að fylgjast með hvernig dyraverðinum reiddi af. „Hemmi þurfti ekkert að plata mig út í þetta, ég er alltaf til í svona fíflalæti. Ég gætti að því að klæða mig vel, það var sex stiga frost og talsverð vindkæling en ég hafði vit á að fara í föðurland og hlýja sokka, þannig að það væsti ekki um mig," segir Gussi, sem er að vísu vanur að standa úti í frosthörkum og gæta að biðröðinni fyrir framan Café Oliver. Hann viðurkennir þó að örlítil lofthræðsla hafi gert vart við sig.

„Hún stakk sér aðeins niður þarna fyrst en maður verður bara að bægja svoleiðis frá sér."

Að þættinum loknum var Gussi látinn síga niður og tók stefnuna rakleitt á Kaffi París þar sem hann gæddi sér á heitu kakói til að fá í sig yl. „Og hef það bara þokkalegt í dag."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.