Viðskipti innlent

Stærsta arðgreiðsla Íslandssögunnar

Hafliði Helgason skrifar
Einróma samþykkt Hluthafar Kaupþings samþykktu samhljóða arðgreiðslu að verðmæti um 20 milljarðar króna.
Einróma samþykkt Hluthafar Kaupþings samþykktu samhljóða arðgreiðslu að verðmæti um 20 milljarðar króna.

Hluthafafundur Kaupþings samþykkti einróma að greiða arð til hluthafa. Arðgreiðslan er í formi hlutafjár í Exista og nemur markaðsvirði arðgreiðslunnar hátt í 20 milljarða króna eða ríflega 890 þúsund hlutir í félaginu. Bankinn heldur eftir fjármagnstekjuskatti af greiðslunni og nemur hún um tveimur milljörðum króna.

Með arðgreiðslunum hafa verið rofin gagnkvæm eignatengsl þessara félaga, en Exista er stærsti hluthafi í Kaupþingi. Sigurður Einarsson, stjórnarformaður Kaupþings, sagði bankann aldrei hafa litið á krosseignarhald sem tól í valdatafli viðskiptalífsins. Hitt er annað að það hefur verið mikilvægur þáttur í hugmyndafræði okkar að vinna náið með viðskiptavinum okkar, en halda slíkum tengslum á hreinum viðskiptagrunnni.

Hann sagði eignarhlutinn í Exista skýrt dæmi um árangur slíkrar stefnu. Þrátt fyrir það hefur krosseignarhald tilhneigingu til að valda hugarangri á markaði, eins og við höfum séð og því ákváðum við að draga úr því og auka seljanleika eigna bankans.

Sigurður segir að með arðgreiðslunni dragi verulega úr eigin hlutafjáreign bankans og skráning Exista dragi fram raunvirði eignarinnar. Exista vandamálið eins og sumir hafa kosið að kalla það, hefur reynst okkur slík byrði að það skilar bankanum 23,8 milljörðum í hagnað á þessu ári. Ég er viss um að margir bankar myndu glaðir vilja glíma við slíkt vandamál.

Sigurður gerði að umræðuefni í ræðu sinni samleið Bakkavarar og Kaupþings, en stofnendur Bakkavarar, þeir Ágúst og Lýður Guðmundssynir, eru stærstu eigendur Exista. Sigurður sagði þessi fyrirtæki hafa vaxið hlið við hlið í að verða stór arðsöm alþjóðleg fyrirtæki á skömmum tíma. Þegar leiðir lágu saman var Kaupþing minnsta fjármálafyrirtæki landsins. Bakkavör var lítið annað en hugmynd og skuldavandamál fyrir tíu árum. Nú er Bakkavör fyrirtæki sem er leiðandi alþjóðlegt matvælafyrirtæki sem rekur 46 verksmiðjur og með sextán þúsund starfsmenn í sjö löndum með um 180 milljarða veltu.

Arðgreiðslan sem er sú stærsta hérlendis var samþykkt samhljóða.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×