Innlent

Samkomulag milli stjórnmálaflokkanna um fjármál þeirra

Sveitarfélögum verður í fyrsta skipti gert að styrkja framboð til sveitarstjórna, samkvæmt samkomulagi fulltrúa allra stjórnmálaflokka. Þau losna á móti við kostnað sem þau hafa af alþingiskosningum.

Sigurður Eyþórsson, formaður nefndar um lagalega umgjörð stjórnarmálastarfseminnar og Kjartan Gunnarsson, varaformaður nefndarinnar, skiluðu forsætisráðherra niðurstöðum nefndarinnar í stjórnarráðinu í dag. Fulltrúar allra stjórnmálaflokka áttu sæti í nefndinni sem skipuð var í forsætisráðherratíð Halldórs Ásgrímssonar. Forsætisráðherra reiknar með að hann og formenn hinna stjórnmálaflokkanna leggi sameiginlega fram frumvarp á yfirstandandi þingi sem byggi á tillögum nefndarinnar, þannig að ný lög gildi um stjórnmálaflokkana í kosningunum næsta vor.

Geir H Haarde, forsætisráðherra, segir að þetta séu mikil tíðindi og merkilegt að góð sátt skuli nást um þessi mál milli stjórnmálaflokkanna. Óhætt sé að segja að þessar tillögur feli í sér grundvallarbreytingu.

Í dag gilda engin sérstök lög um styrki fyrirtækja og einstaklinga til stjórnmálaflokka og flokkarnir eru ekki bundnir af öðrum lögum hvað þessa styrki og upplýsingar um þá varðar, en bókhaldslögum. Í tillögunum er hins vegar gert ráð fyrir að einstaklingar, félög og fyrirtækjasamstæður geti ekki styrkt stjórnmálaflokka um meira en 300 þúsund krónur á ári. Að auki getur flokksbundið fólk greitt allt að hundrað þúsund krónur í félagsgjöld á ári. Á móti er gert ráð fyrir að framlög ríkisins til stjórnmálaflokkana hækki um 130 milljónir en þau eru nú tæpar 300 milljónir. Stjórnmálaflokkarnir verða að greina frá fyrirtækjum sem styrkja þá en ekki frá nöfnum einstaklinga.

Forsætisráðherra segir það vera rétt hvers manns að styðja þau stjórnmálaöfl sem hann kjósi, án þess að þurfa að gefa það upp.

Í tillögum nefndarinnar er tekið tillit til nýrra stjórnmálaafla. Þeir flokkar eða listar sem eru að bjóða fram í fyrsta skipti, geta sótt um styrk frá ríkinu fái þau 2,5 prósent greiddra atkvæða eða að minnsta kosti einn mann kjörinn á Alþingi.

Það er nýjung í tillögunum að sveitarfélögum með fleiri íbúa en 500 verður gert skylt að styðja við framboð til sveitarstjórna. Á móti losna þau við kostnað sem sveitarfélögin hafa af Alþingiskosningum. Þá gilda sömu takmarkanir um einstaklinga varðandi framlög í tengslum við prófkjör og gilda um stuðning við flokka en styrkir mega þó ekki verða samanlagt meiri en ein milljón, auk ákveðins álags miðað við fjölda kjósenda í kjördæmi.

Hingað til hafa þeir sem bjóða sig fram til embættis forseta Íslands ekki átt kost á styrkjum frá ríkinu. En samkvæmt tillögum nefndarinnar munu þeir frambjóðendur sem fá tíu prósenta fylgi eða meira eiga rétt á styrkjum. Allir styrkir, hvort sem er til flokka eða einstaklinga, eru háðir því að þeir skili endurskoðuðum reikningum til Ríkisendurskoðunar.

Brjóti flokkar eða einstaklingar gegn þessum reglum, verður hægt að refsa fyrir það með sektum og allt að sex ára fangelsi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×