Lífið

Ævintýri sem stenst tímans tönn

Guðjón Davíð Karlsson og Ólafur steinn Ingunnarson í hlutverkum sínum Leikritið um Karíus og Baktus verður frumsýnt norðan heiða í dag en þeirra saga gegnir lykilhlutverki í baráttunni fyrir bættri tannhirðu.
Guðjón Davíð Karlsson og Ólafur steinn Ingunnarson í hlutverkum sínum Leikritið um Karíus og Baktus verður frumsýnt norðan heiða í dag en þeirra saga gegnir lykilhlutverki í baráttunni fyrir bættri tannhirðu. Mynd/Leikfélag Akureyrar

Íslensk börn þekkja mæta vel örlög félaganna Karíusar og Baktusar en boðskapur ævintýris þeirra á samt alltaf við. Í dag frumsýnir Leikfélag Akureyrar nýja uppfærslu á barnaleikritinu kunna, sem er sérsniðið að allra yngstu leikhúsgestunum. Þó eru það ekki eingöngu börnin sem fagna sögunni sígildu, heldur hampar ein fagstétt henni hærra en aðrir og höfundinum ekki síður.

Sigurður Rúnar Sæmundsson tannlæknir sérhæfir sig í tannlækningum barna. Hann segir að skjólstæðingum sínum verði tíðrætt um þá félaga og að sagan um Karíus og Baktus gegni sérstöku hlutverki í baráttunni fyrir bættri tannhirðu. „Tannskemmdir heita Karíus og Baktus upp að vissum aldri og börnin tala mikið um þá. Margar sögur sem fjalla um tennur og tannlækningar vekja ótta hjá börnum en þessi saga virðist ekki gera það - þótt þetta séu óttaleg örlög sem þeir hljóta er sagan svo fallega sett upp að krakkarnir verða ekki hræddir.“ Hann bætir því við að starfsfélagar hans í Noregi hafi á sínum tíma gert Thorbjörn Egner að heiðursfélaga í norska Tannlæknafélaginu. „Það lýsir kannski best afstöðu tannlæknastéttarinnar,“ segir hann.

Sagan um Karíus og Baktus hefur að sögn fylgt Sigurði frá barnsaldri og hann man enn eftir tannburstanum stóra sem þeytti þeim köppum út í sjó - og af leiksviðinu. „Ég hef verið um tíu ára gamall og þetta atriði er mér enn mjög minnisstætt,“ segir Sigurður og kímir en vill þó ekki viðurkenna að verkið hafi haft áhrif á starfsframann.

Leikritið Karíus og Baktus verður frumsýnt í Rýminu hjá Leik­félagi Akureyrar í dag. Leikstjóri er Ástrós Gunnarsdóttir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.