Lífið

Fyrsti arkitektatvíæringurinn

Tónlistar- og ráðstefnuhúsið sem rísa mun við miðbakkann í Reykjavík
Fyrsta framlag Íslands á Feneyjartvíæring byggingarlistarinnar.
Tónlistar- og ráðstefnuhúsið sem rísa mun við miðbakkann í Reykjavík Fyrsta framlag Íslands á Feneyjartvíæring byggingarlistarinnar.

Íslendingar taka þátt í byggingarlistatvíæringnum í Feneyjum í fyrsta sinn en nú um helgina verður nýtt tónlistar- og ráðstefnuhús landsmanna kynnt á þessum virta vettvangi.

Feneyjartvíæringuinn er þekktastur fyrir myndlist en færri vita að þar eru einnig haldnar sýningar í tengslum við kvikmyndir, tónlist, dans- og leiklist auk byggingarlistarinnar. Fimmtíu lönd taka þátt í þessum tíunda tvíæringi byggingarlistarinnar en yfirskrift ársins er Cities, architecture and society.

Albína Thordarson, formaður Arkitektafélags Íslands, segir að þetta séu viss tímamót í íslenskri byggingarsögu því þrátt fyrir að arikektar þeir sem hönnuðu tónlistar- og ráðstefnuhúsið séu danskir séu Íslendingar nú að slást í hópinn. Hin Norðurlöndin hafa lengi tekið þátt í þessum byggingartvíæringi og verið áberandi þar. Það er líka vel við hæfi að sýna tónlistar- og ráðstefnhúsið nú því yfirskrift þessa tvíærings gæti útlagst sem Borgir, byggingarlist og samfélag en þetta hús mun án efa breyta ásýnd borgarinnar og hafa mikil áhrif á samfélagið hér. Albína segir of snemmt að áætla nokkuð um áhrif eða þýðingu þess að Íslendingar taka þátt í þessum viðburði en kveðst sannarlega vona að framhald verði á því.

Lagt er upp með að Tónlistarhúið verði stærsta og vandaðasta menningarhús landins og mun það til dæmis hýsa Sinfóníuhljómsveit Íslands. Í tónlistarhúsinu verða þrír tónleikasalir auk ráðstefnuaðstöðu á heimsklassa. Við hlið hússins verður hótel og innangengt milli bygginganna.

Þórhallur Vilhjálmsson fer fyrir hönd fyrirtækisins Portus til Feneyja en félagið sér um byggingu og rekstur tónlistar- og ráðstefnuhússins en Þórhallur er jafnframt umsjónarmaður íslenska sýningarskálans. Okkar þátttaka hefst formlega með fjölmiðlafundi næstkomandi föstudag en svokallaðir þjóðarskálar hafa verið að opna alla þessa viku. Von er á góðum gestum á föstudaginn en fyrirfólk og frammámenn verða viðstaddir opnunina.

Dorrit Moussaieff forsetafrú kemur sem fulltrúi Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur menntamálaráðherra og Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar borgarstjóra en þau bjóða formlega til þessarar opnunar, útskýrir Þórhallur. Auk hennar verða fulltrúar frá Reykjavíkurborg viðstaddir auk fulltrúa frá teiknistofu Henning Larsens sem hannaði húsið en þess má geta að stofa sú hannaði einnig nýopnað Óperuhús Kaupmannahafnar. Myndlistarmaðurinn Ólafur Elíasson sem hannar nokkurs konar ytra byrði og tengibyggingar hússins og næsta nágrenni þess verður einnig viðstaddur opnunina.

Byggingu hússins hefur verið beðið með eftirvæntingu um árabil en stefnt hefur verið að því að opna það árið 2010. Nánari upplýsingar um húsið má finna á heimasíðu þess, www.tonlistarhusid.is.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.