Lífið

Fetar í fótspor föður síns

Í þá gömlu góðu
Helgi Pétursson, Ólafur Þórðarson og Ágúst Atlason skipa Ríó tríóið.
Í þá gömlu góðu Helgi Pétursson, Ólafur Þórðarson og Ágúst Atlason skipa Ríó tríóið.

Hljómsveitin Sprengjuhöllin, með Snorra Helgason á gítar, sýndi stórksemmtileg tilþrif í Kastljósinu á fimmtudagskvöldinu. Snorri á ekki langt að sækja  hæfileikana en hann er sonur Helga Pé úr Ríó tríóinu.

„Pabbi kenndi mér nú ekki á gítarinn heldur lærði ég bara á hann sjálfur,“ sagði Snorri þegar Fréttablaðið ræddi við hann. Hanni segist ekki vita til þess að hafa orðið fyrir áhrifum frá Ríó tríóinu em: „Það hlýtur að hafa einhver áhrif þegar tónlistin er alltaf hljómandi í kring.“

Gítarleikarinn knái segist að sjálfsögðu hlusta á lög Ríó tríósins. „Auðvitað hlusta ég. Ég má heldur ekki segja neitt annað,“ segir Snorri hlæjandi. Spurður hvert sé uppáhaldslagið hans með Ríó tríó segir hann: „Þeir eiga nokkra góða smelli en það er erfitt að velja á milli.“

Helgi Pé hefur fylgst grannt með Snorra og Sprengjuhöllinni. „Mér finnst þetta glaðlegt og skemmtilegt hjá þeim. Melódísk lög með fínum textum og það er gaman að þeir skuli semja allt sjálfir. Mér sýnist þeir vera að skapa sinn eigin stíl,“ segir Helgi. „Þeir eru líka duglegir sem er gott. Því þetta kemur allt með æfingunni og það segi ég af gamalli reynslu.“

Þeir feðgar hafa einu sinni troðið upp saman með Ríó tríóinu en það var þegar móðir Snorra fagnaði fimmtugsafmæli sínu. „Það gekk ljómandi vel en við höfum ekki verið að troða mikið upp saman enda erum við að ferðast á ólíkum slóðum í tónlistinni,“ segir Helgi.

Bassaleikarinn segir soninn ekki hafa sýnt tónlistinni mikinn áhuga þegar hann var yngri. „Öll eldri systkinin hans þrjú fóru í tónlistarnám, bæði á píanó og í söng en ekkert þeirra hefur sinnt því frekar. Snorri byrjaði hins vegar bara upp úr þurru þegar hann seildist í gítar bróður síns þegar hann var fimmtán ára,“ segir Helgi.

 „Óli vinur minn úr Ríóinu kenndi hins vegar tónmennt í Hlíðaskóla þegar Snorri var að fara þar í gegn. Og þó ég hefði ekki séð þess merki að Snorri ætlaði í tónlistina tók Óli eftir því. „Það er músík í þessum strák,“ sagði hann og það hefur gengið eftir.“

Helgi segir Snorra og félaga í Sprengjuhöllinni ekki vera beint í Ríó tríó stílnum. „Hann hefur samt verið að hlusta á mikið af því sem ég hlustaði sjálfur á, svo sem Kinks og The Band og hann tekur Dylan í nefið. Svo við erum kannski ekki svo langt frá hvor öðrum í tónlistinni.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.