Lífið

Sjónvarpskokkur kaupir Habitat

Stórtæk hjón Þau Jón Arnór og Ingibjörg hafa fest kaup á Habitat-versluninni sem hefur lengi verið vinsæl meðal fagurkera í innanhúsarkitektúr.
Stórtæk hjón Þau Jón Arnór og Ingibjörg hafa fest kaup á Habitat-versluninni sem hefur lengi verið vinsæl meðal fagurkera í innanhúsarkitektúr.

Jón Arnór Guðbrandsson hefur keypt húsgagnaverslunina Habitat ásamt eiginkonu sinni Ingibjörgu Þorvaldsdóttur og taka þau því við af Árna Ólafi Ásgeirssyni og Sólveigu Hannam sem rekið hafa búðina í rúm sjö ár.

Kaupin gengu í gegn á laugardaginn og þegar Fréttablaðið hafði samband við Habitat var það fyrsta símtal Jóns í nýrri verslun.

"Þetta hefur alltaf verið aðal­áhugamál okkar tveggja; að innrétta með fallegum húsgögnum," segir Jón sem var kampakátur með nýju verslunina en hún hefur lengi verið vinsæl meðal fagurkera í innanhúsarkitektúr. "Við ætlum að gera þó nokkrar breytingar en auðvitað tekur alltaf tíma að fá nýjar vörur inn í búðina," bætir Jón við og segist gjarnan vilja uppfæra þær vörur sem til eru og láta búðina vera meira í takt við það sem er að gerast erlendis. "Núna erum við aðallega að reyna kynnast og læra af öllu því góða fólki sem hér starfar," segir hann og hefur greinilega miklar hugmyndir um búðina. "Við viljum stækka hana og breyta og gera hann ögn líflegri og bjartari," útskýrir hann en róar þó aðdáendur búðarinnar sem þurfa engu að kvíða þrátt fyrir eigendaskiptin.

Jón Arnór vakti mikla athygli þegar hann kom heim til frægra Íslendinga og eldaði fyrir þá ásamt félaga sínum, Rúnari Gíslasyni auk þess sem þeir félagar ráku veisluþjónustuna Kokkarnir. "Svo var bara komin tími til að breyta til," útskýrir Jón en hann hætti hjá fyrirtækinu fyrir þremur árum. Nú rekur hann fimm Oasis verslanir ásamt Ingibjörgu í Danmörku og er Habitat því enn ein rósin í hnappagatið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.