Lífið

Alcan keypti upp eina tónleika hjá Bó

Hrannar Pétursson Álverið keypti upp eina tónleika hjá Björgvini Halldórssyni og Sinfóníuhljómsveit Íslands í Laugardalshöll
Hrannar Pétursson Álverið keypti upp eina tónleika hjá Björgvini Halldórssyni og Sinfóníuhljómsveit Íslands í Laugardalshöll

„Við erum bakhjarlar þessara tónleika og keyptum eina upp sem verða á laugardaginn klukkan fimm, þeir fyrstu í röð þriggja,“ útskýrir Hrannar Pétursson, upplýsingafulltrúi Alcan álversins í Straumsvík. „Björgvin er náttúrlega einn af helstu sonum Hafnafjarðar og svo skemmtilega vill til að þegar álverið hóf framleiðslu á áli árið 1969 var Björgvin kjörinn Poppstjarna Íslands,“ segir Hrannar.

Öllum starfsmönnum álversins er boðið ásamt mökum auk fyrrverandi starfsmönnum og mökum þeirra á tónleika Björgvins og Sinfóníunnar en mikil eftirspurn hefur verið eftir miðum á herlegheitin og þegar verið bætt við þriðju tónleikunum sem verða á sunnudeginum. Þá var helstu viðskiptavinum Alcan einnig boðið auk helstu birgja, bæði hér heima og erlendis.

Aðspurður hvort stór hópur af útlendum gestum væri væntanlegur til landsins til að berja goðið augum sagði Hrannar svo ekki vera, „Kannski tuttugu manns,“ sagði hann. Hafnfirðingar verða fjölmennir í Laugardalshöllinni á laugardaginn því þeim gafst tækifæri á að vinna sér inn miða á heimasíðu fyrirtækisins og reyndi fjöldi bæjarbúa fyrir sér og voru hinir heppnu dregnir út á föstudaginn.

Hrannar sagði mætinguna hjá starfsmönnum fyrirtækisins aldrei hafa verið meiri á neinn viðburð og því greinilegt að Björgvin nýtur mikilla vinsælda meðal sveitunga sinna í álverinu. „Við höfum verið að gera ýmislegt í tilefni af fjörutíu ára afmæli okkar og það er mikill spenningur og stemning hjá starfsfólkinu,“ sagði Hrannar sem hafði þó ekki tekið frá sæti á fremsta bekk fyrir sjálfan sig. „Ég verð þarna í góðu stuði um miðjan sal.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.