Viðskipti innlent

Gull Seðlabankans ávaxtast vel

Gullstangir Seðlabanki Íslands á 64 þúsund únsur af gulli sem eru vel geymdar í Englandsbanka.
Gullstangir Seðlabanki Íslands á 64 þúsund únsur af gulli sem eru vel geymdar í Englandsbanka.

Gullforði Seðlabanka Íslands var í júní í ár rúmlega þriggja milljarða króna virði og fjögur prósent af erlendum eignum sjóðsins. Frá áramótum hefur virði gullsins aukist um 940 milljónir króna. Þá var forðinn 2.074 milljóna króna virði eða um þrjú prósent af erlendum eignum bankans.

Þessi mikla hækkun kemur ekki til af því að Seðlabankinn hafi fært sig í öruggt skjól gulls­ins. Seðlabankinn hefur um langa hríð átt rúmar 64 þúsund únsur af gulli sem varðveittar eru í Englandsbanka. Hefur bankinn hvorki selt af því né bætt við sig svo árum skiptir heldur leigjast gullstangirnar út og hefur bankinn af þeim vexti.

Tvennt kemur til hækkunar á virði gullsins. Annars vegar að gullforðinn er metinn að markaðsvirði og gullverð hefur hækkað verulega á undanförnum árum. Verð á únsu var til að mynda 613 dollarar í júnílok en 513 dollarar í árslok 2005. Hins vegar hefur dollarinn styrkst gagnvart krónunni sem enn eykur á virði gulls­ins sem metið er í dollurum.

Aðalbókari Seðlabanka Íslands segir gull­eign Seðlabankans í dag fyrst og fremst koma til af sögulegum ástæðum. "Þetta stendur á gömlum merg. Það er löngu liðin tíð að gullforðinn sé notaður sem trygging varðandi seðlaútgáfu. Flestir seðlabankar heims eiga enn eitthvert magn af gulli en það er sjaldan mikilvægasta eignin eins og áður fyrr."

Nú stendur erlendir gjaldeyrir, sem samanstendur af seðlum og innistæðum annars vegar og verðbréfum hins vegar, fyrir langstærstum hluta erlendra eigna Seðlabanka Íslands.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×