Innlent

Mávageri líkt við rottugang

Vargöld Margir borgarbúar eru orðnir þreyttir á mávagerinu við Tjörnina og borgar­yfirvöld hyggjast skera upp herör gegn varginum.
Vargöld Margir borgarbúar eru orðnir þreyttir á mávagerinu við Tjörnina og borgar­yfirvöld hyggjast skera upp herör gegn varginum. MYND/GVA

Afgreiðslu á tillögu borgarmeirihlutans um stórauknar aðgerðir gegn mávi í borgarlandinu með skotveiðum og eitrun, var frestað á fundi umhverfis- og skipulagsráðs á mánudag að tillögu minnihlutans. Ástæðan er sú að minnihlutinn vill meiri umræðu um málið og telur það ósannað að það skili tilætluðum árangri að auka mávadrápið.

Gísli Marteinn Baldursson, formaður skipulags- og umhverfisráðs, segir að þrátt fyrir að tillagan hafi ekki verið samþykkt á fundinum nú þá hafi hann hvatt meindýraeyða borgarinnar til að halda ótrauða áfram því enga sérstaka samþykkt þurfi til þess. Það er allt of mikið af vargi í borginni núna og borgarbúar eru farnir að tala um fljúgandi rottugang. Ég veit ekki um neina borg í heiminum sem myndi ekki ráðast gegn slíku.

Ólafur Karl Nielsen, vistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun, segir aðallega um sílamáv að ræða. Hann segir að um gríðarlega stóran stofn að ræða og mögulegt sé að hrekja hann í burtu tímabundið. Þá verður maður að standa þarna við allan daginn en það hræðir einnig aðra fugla og fólk. En ef á að slá á allan þennan fjölda þá verður það aldrei gert við Tjörnina því þar er aðeins yfirfallið af tugum þúsunda fugla. Það er ekki mögulegt að fækka fuglinum öðruvísi en að ráðast gegn stóru meginvörpunum, til dæmis í kringum Keflavíkurflugvöll.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×