Innlent

Röð af óhöppum

"Hér er um röð af óhöppum að ræða, ég vil ekki tala um að neinn hafi gert mistök," segir Árbjörn Magnússon, yfirsundlaugarvörður í sundlaug Eskifjarðar, um klórmengunina sem átti sér stað á þriðjudaginn.

Daginn eftir slysið var enn megn klórlykt inni í sundlaugarbyggingunni. Eins og komið hefur í ljós var orsök mengunarslyssins sú að ediksýru var dælt í klórtank sundlaugarinnar fyrir mistök. Slanga var tengd úr tanki sem var í bíl við hliðina á sundlauginni og starfsmaður Olís var við bílinn þegar dælun hófst. Að sögn Árbjörns varð starfsmaðurinn strax var við að ekki væri allt með felldu og tjáði Árbirni að hér væri klórgas á ferð. "Þegar hann sá þessa gulu slikju koma frá tankherberginu sagði hann mér að hlaupa strax inn og hringja á slökkviliðið, hann þekkti það um leið að þetta væri klórgas." Árbjörn segir það lán í óláni að klórtankurinn var næstum því tómur og verr hefði getað farið.

Árbjörn sá að sundlaugargestir gripu um vit sín og hlupu inn í búningsklefana en klórgasið hafði dreifst út um allt hús gegnum loftræstikerfið. Ástandið var því síst skárra þar. Árbjörn hringdi strax í neyðarlínuna og sundlaugarverðir drifu sundlaugargesti út undir bert loft.

Lögreglan mætti strax á staðinn og tók yfir stjórn á vettvangi. Árbjörn segir að starfsmaður Olís hafi getað veitt lögreglu allar upplýsingar á staðnum. Starfsmönnum sundlaugarinnar var ekki hleypt aftur inn í sundlaugina fyrr en um kvöldið, eftir að jafnvægi hafði verið komið á klór­tankinn og loftið hreinsað.

"Fólk hefur mikið verið að hringja í dag og spyrja um fötin sín," segir Árbjörn en fæstir höfðu tíma til að grípa fötin með sér á hlaupum út úr byggingunni.

Árbjörn er mjög ánægður með viðbrögð lögreglu og annarra í þessum aðstæðum. "Þetta gekk allt mjög hratt fyrir sig og allir stóðu sig vel."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×