Innlent

193.000 tonn af þorski

Einar K. Guðfinnsson
Einar K. Guðfinnsson

Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra hefur ákveðið að leyfilegur heildarafli þorsks á næsta fiskveiðiári verði 193 þúsund tonn en hann er 198 þúsund tonn á yfirstandandi fiskveiðiári sem lýkur 31. ágúst næstkomandi.

Við ákvörðun á heildarafla þorsks á næsta fiskveiðiári er byggt á breyttri aflareglu. Nú ákvarðast aflamark sem meðaltal af aflamarki síðasta fiskveiðiárs og hlutfalli af viðmiðunarstofni í upphafi úttektarárs. Þetta er í samræmi við tillögur Aflareglunefndar frá árinu 2004 en áfram er miðað við óbreytt veiðihlutfall, 25 prósent. Þetta hefur í för með sér að veidd verða fimm þúsund tonnum meira af þorski á komandi fiskveiðiári en annars hefði verið gefið leyfi fyrir og er umfram ráðgjöf Hafrannsóknastofnunarinnar.

Aðspurður um hvort ákvörðun fiskveiðiheimilda í þorski umfram ráðgjöf gæti haft slæm áhrif á afrakstursgetu þorsks í framtíðinni svaraði sjávarútvegsráðherra að hann liti svo á að úthlutunin væri mjög ábyrg og annars hefði hann aldrei lagt hana til. "Ég vek athygli á því að um litlar breytingar er að ræða frá þeirri aflareglu sem var í gildi. Ég vil undirstrika að þorskstofninn okkar er ekki undir sérstakri vá." Einar segir stóra málið vera hvernig staðið verði að uppbyggingu þorskstofnsins og til þess vanti heildarmynd. "Þess vegna bað ég Hagfræðistofnun Íslands að gera úttekt á þjóðhagslegum áhrifum af breyttri aflareglu og skoða áhrif af mismunandi veiðihlutfalli á þorski." Hér vísar ráðherra til úttektar sem Tryggvi Þór Herbertsson, forstöðumaður Hagfræðistofnunar, mun leiða og tekur til áhrifa breyttrar aflareglu og veiðihlutfalls til lengri og skemmri tíma fyrir efnahagslífið í heild, sjávarútveginn, einstök fyrirtæki, útgerðarstaði og landsvæði.

Við ákvörðun á heildarafla annarra fisktegunda er stuðst í meginatriðum við tillögur Hafrannsóknastofnunarinnar. Undantekning er að leyfilegt verður að veiða sama heildarmagn af ýsu og á yfirstandandi fiskveiðiári, eða 105 þúsund tonn. Tillaga Hafrannsóknastofnunarinnar kvað á um 95 þúsund tonn. Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri Landssambands íslenskra útvegsmanna, segir fátt koma á óvart. "Það eru reyndar breytingar á aflareglunni í þorski og ég held að það sé skynsamleg breyting. Þessi aðferðafræði gengur til dæmis ekki eins nærri ungfiski þegar hann er að koma inn í veiðina."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×