Viðskipti innlent

Fjárfest í sænskum tölvusala

Burðarás hefur eignast tæplega fimmtán prósenta hlut í sænska upplýsingatæknifyrirtækinu Scribona. Burðarás hafði eignast lítinn hlut í fyrirtækinu, en keypti 12,9 prósenta hlut fyrir um 900 milljónir króna. Scribona er alhliða upplýsingatæknifyrirtæki sem selur bæði vélbúnað og hugbúnað. Vélbúnaðurinn er þó stærri hluti rekstrarins. Framlegð félagsins hefur verið slök undanfarin ár, en ráðist hefur verið í hagræðingu sem á að skila sér í bættum rekstri. "Við töldum fyrirtækið lágt metið," segir Friðrik Jóhannsson, framkvæmdastjóri Burðaráss, um kaupin. Scribona er með um fjórtán prósenta markaðshlutdeild í sölu á tölvubúnaði á Norðurlöndunum. Geirinn hefur verið í lægð að undanförnu, en mat Burðaráss er að skilyrði fari batnandi á þessum markaði samhliða því sem aðhaldsaðgerðir í rekstri muni skila sér. Þannig er veikur dollari hagstæður þar sem tæknivörur verða ódýrari í innkaupum. Kaupin í Scribona eru önnur kaup Burðaráss í Svíþjóð sem eru tilkynningarskyld. Friðrik segir það ekki merki um að Burðarás hafi augastað á sænskum fyrirtækjum öðrum fremur. Burðarás á stóran hlut í verðbréfafyrirtækinu Carnegie og í aðdraganda kaupa þess má gera ráð fyrir að sænski markaðurinn hafi verið tekinn til gaumgæfilegar skoðunar. Velta Scribona var 106 milljarðar og veltan fyrstu níu mánuði ársins 2004 nam 74 milljörðum króna. Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði árið 2003 nam aðeins 0,8 prósentum af tekjum.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×