Skoðun

Upp með fánann 1. maí!

Fyrsti maí - Einar Ólafsson bókavörður Miðstjórn Rafiðnaðarsambands Íslands telur tímabært að verkalýðshreyfingin endurskoði hvernig staðið sé að hátíðarhöldum 1. maí, þau séu barn síns tíma og lítil þátttaka ásamt athöfnum margskonar öfgahópa hafi eyðilagt þá áferð sem var á þessum degi. Ekki átta ég mig alveg á hvaða öfgahópa miðstjórnin á við. Vissulega voru ýmsir hópar vinstri róttæklinga áberandi 1. maí með verkalýðssinnaðar kröfur fyrir um 20 árum og oft kallaðir öfgahópar. Í 1. maí-göngum undanfarinna ára í Reykjavík man ég varla eftir öðrum hópum utan verkalýðsfélaganna en Femínistafélaginu með kröfur um jafnrétti kynjanna og Samtök herstöðvaandstæðinga með kröfur um herlaust land og gegn stríði. Þetta eru nú öfgahóparnir sem hafa eyðilagt áferð 1. maí, baráttudags verkalýðsins. Nú veit ég að sum verkalýðsfélög leggja mikið upp úr jafnrétti kynjanna og víða um heim hafa verkalýðsfélög tekið virkan þátt í baráttunni gegn stríði á undanförnum árum enda bitna styrjaldir fyrst og fremst á alþýðufólki. Ég var á heimsþingi Alþjóðasambands frjálsra verkalýðsfélaga í byrjun desember. Það einkenndist af áhyggjum vegna nýfrjálshyggjunnar og hnattvæðingarinnar sem m.a. grefur undan réttindum verkafólks eins og Rafiðnaðarsambandið hefur kynnst rækilega við Kárahnjúka. Rúmum mánuði fyrr var ég á Evrópska samfélagsþinginu (European Social Forum) í London, 20 þúsund manna samkomu fjölmargra baráttusamtaka og mundu kannski sumir kalla sum þeirra öfgahópa. En þarna voru líka fjölmörg verkalýðssamtök í Bretlandi og víðar í Evrópu og sá ég ekki betur en þau kynnu bara vel um sig í þessum selskap. Og satt að segja var líkur andi í fundarsölum hinnar alþjóðlegu verkalýðshreyfingar þótt allt væri með nokkuð formlegra sniði. Ein af ályktunum heimsþings verkalýðsfélaganna fjallaði um baráttu verkalýðshreyfingarinnar fyrir friði. Þar segir meðal annars: "Þingið fordæmir ákvörðunina um að hefja þetta stríð [þ.e. stríðið í Írak] sem var ónauðsynleg og óásættanleg án samþykkis Sameinuðu þjóðanna." Jafnframt voru verkalýðsfélög hvött til samvinnu við baráttu- og friðarsamtök. Mörg íslensk verkalýðsfélög studdu mótmælaaðgerðir í aðdraganda þessa stríð veturinn 2002 til 2003 en þau hefðu líka mátt hvetja félagsmenn sína til að bera spjöld gegn þessu stríði 1. maí sem og spjöld með kjörorðum gegn einkavæðingu og niðurskurði velferðarkerfisins og fyrir réttindum verkalýðshreyfingarinnar. Það er góðra gjalda vert að verkalýðsfélögin efni til fjölskylduskemmtana 1. maí, t.d. eftir kröfugönguna. En það væri hlálegt einmitt nú að breyta 1. maí úr baráttudegi yfir í einhverskonar skemmtidag eða eyðileggja hann með því að gera hann að hluta af langri helgi. Þvert á móti þyrftu verkalýðsfélögin að gera átak til að fá félagsmenn sína til að fylkja sér undir róttæk kjörorð 1. maí og taka höndum saman við alla baráttumenn fyrir friði og betra þjóðfélagi. Og þau gætu byrjað strax með því að hvetja félagsmenn sína til að taka þátt í mótmælafundum 19. mars nk. undir kjörorðinu. Höfnum stríði!



Skoðun

Sjá meira


×