Innlent

Fé skynsamlegra en hjálpargögn

Litlar líkur eru á því að söfnunarféð vegna flóðanna í Asíu fari forgörðum að sögn Þóris Guðmundssonar, talsmanns Rauða krossins. Hann segir langtum skynsamlegra að senda peninga en hjálpargögn. Rauði krossins hér á landi hefur safnað 95 milljónum til hjálpar fórnarlömbum flóðanna í Suðaustur-Asíu. Um helmingur upphæðarinnar hefur komið frá einstaklingum. Á mánudaginn hefst svo landssöfnun undir kjörorðinu Neyðarhjálp úr norðri á vegum samstarfshóps einstaklinga, fyrirtækja og fjölmiðla þar sem 40 prósent upphæðarinnar fer til Rauða krossins. Áður fyrr tíðkaðist að Rauði krossinn hér á landi sendi mat og önnur hjálpargögn til neyðaraðstoðar úti í heimi. Þórir Guðmunsson, sviðsstjóri útbreiðslusviðs samtakanna, segir það vera liðna tíð. Skynsamlegast sé að gefa fé og samtökin hafi einbeitt sér að því. Þó hafi þau notað tækifærið þegar flug hafi boðist, líkt og um daginn þegar flogið var til Taílands. Þá var vatni sem Ölgerð Egils Skallagrímssonar komið á hamfarasvæðið. Í undantekningartilfellum sé skynsamlegast að gefa hluti en langbest sé að senda peninga á vettvang eða sérhæfða sendifulltrúa sem beðið sé um. Umræða hefur verið um það undanfarið að fé sem eyrnamerkt er tilteknu hjálparstarfi fram í tímann geti að einhverju leyti dagað uppi þegar verkefninu er lokið. Þórir efast um að það verði raunin. Þetta séu umfangsmestu hamfarir sem vitað sé um síðan í síðari heimsstyrjöld og því litlar líkur á að það glatist.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×