Innlent

Fárviðri í Danmörku

MYND/AP
Þrír menn hafa látist í dag í fellibyl sem nú gengur yfir Danmörku og hluta Svíþjóðar. Karlmaður lést þegar tré féll á bíl við Ålykkeskóg í Óðinsvéum í Danmörku. Tveir aðrir létust þegar þak fauk af húsi í bænum Assens sem einnig er á Fjóni. Þá hafa heimilismenn á hjúkrunarheimili við bæinn Middelfart verið fluttir burt eftir að þakið fauk af húsinu. Danska lögreglan varar fólk við að vera á ferðinni vegna fjúkandi þaksteina, fallandi trjáa og flóða. Verst hefur veðrið verið á vesturströnd Danmerkur, en spáð var allt að þriggja metra djúpum vatnsflaumi í sumum bæjum. Í mestu hviðunum hefur vindhraði náð 42 metrum á sekúndu. Í vestur- og suðurhluta Svíþjóðar fór rafmagn af um tólf þúsund heimilum nú síðdegis en búist er við rafmagn verði komið aftur á í kvöld. Umferð er takmörkuð um Eyrarsundsbrúna, milli Danmerkur og Svíþjóðar, en búið er að loka brúnum yfir Stóra- og Litlabelti. Þá hafa sendar tveggja stærstu stöðvanna í Danmörku dottið út víða um landið. Óveðrið er farið að nálgast svokallaðan fellibyl 20. aldarinnar, sem gekk yfir Danmörku, Svíþjóð og norðurhluta Þýskalands í desember 1999. Átján manns létust og gríðarlegt tjón varð á mannvirkjum, einna mest í Danmörku þar sem vindur fór upp í 49 metra á sekúndu á Suður-Jótlandi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×