Innlent

Strandaði á hættulegu skeri

Smáey VE strandaði á Faxaskeri, rétt utan við hafnarmynni Vestmannaeyja, um klukkan fjögur í fyrrinótt. Engan sakaði og fljótlega tókst að losa skipið af skerinu. Smáey varð fyrir mun meiri skemmdum en talið var í fyrstu. Kafarar könnuðu ástand skipsins í gær og kom þá í ljós að um það bil metra löng rifa er á kilinum fyrir neðan stafn skipsins. Lögreglan tók skýrslu af áhöfn við komuna í Vestmannaeyjahöfn en málið á eftir að fara fyrir sjórétt. "Það má þakka Guði fyrir að ekki fór verr," sagði Magnús Kristinsson framkvæmdastjóri fyrirtækisins Bergur-Huginn sem gerir skipið út. "Á þessu sama skeri hafa tvö af verstu sjóslysum Vestamannaeyja átt sér stað þar sem engin mannbjörg varð." Smáey er nú á leið til Reykjavíkur í slipp og er búist við því að það taki upp undir viku að gera við skemmdirnar. Smáey er 200 brúttólesta ísfisktogari. Ellefu manna áhöfn var á skipinu þegar atvikið átti sér stað en engin slys urðu á mannskap.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×