Innlent

Lönduðu tólf hákörlum

Átta og hálft tonn af þorragóðgæti næsta árs kom í troll togarans Sundabergs við Grænland. Skipverjar lönduðu tólf hákörlum í gær. Togarinn Sundaberg veiddi hákarlana við Austur-Grænland þar sem hann hefur verið við gráðlúðuveiði síðasta hálfa mánuðinn. Skipstjórinn Hjörtur Valsson segir þetta meðalafla en undanfarið hafa hákarlar slæðst í trollið á þessum slóðum eins og annar fiskur. Áhöfnin kýs þó heldur grálúðuna enda geta hákarlarnir skemmt veiðarfærin. Hákörlunum var landað við Hafnarfjarðarhöfn í gær, komið á bíl og því næst ekið vestur á land til Hildibrands Bjarnasonar, bónda og hákarlaverkanda í Bjarnarhöfn á Snæfellsnesi. Með öllu vegur meðalhákarl 850 kíló. Lifrin er fjarlægð um borð, Hildibrandur sker af þeim hausana og þá standa eftir 700 kíló af hverri skepnu. Vegna þess hve langt er komið fram á vor þarf að bíða með að kæsa þá. Hildibrandur sker skrokkana því niður í ker og kemur þeim fyrir í frystigámum fram á haust en þá verður kjötið verkað og umbreytist í góðgæti fyrir þorraveislur næsta árs.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×